Piparkökuskyrkaka með saltaðri karamellusósu

Ég er svolítið að vinna með piparkökur og saltaða karamellusósu þessa dagana, einfaldlega vegna þess að mér þykir þessi tvenna svo óskaplega góð og hún virðist ganga með öllu! Fyrst voru það súkkulaðibollakökur og nú elsku skyrið… þessi skyrkaka er lygilega einföld og þið getið útbúið hana degi áður en þið ætlið að bera hana fram, með því móti getið þið losnað við allt auka stress 🙂  Þessi kaka er hrikalega góð og ég mæli með að þið prófið hana sem fyrst.

Piparkökuskyrkaka með saltaðri karamellusósu

Piparkökubotn:

 • 400 g piparkökur
 • 100 g smjör, brætt

Aðferð:

 1. Bræðið smjör í potti og setjið piparkökurnar í matvinnsluvél og myljið fínt, þið getið líka notað kökukefli í verkið.
 2. Hellið smjörinu saman við piparkökublönduna og blandið vel saman.
 3. Hellið blöndunni í kökumót og þrýstið blöndunni í formið og upp með köntunum á forminu.
 4. Kælið á meðan þið útbúið fyllinguna.

Skyrfylling:

 • 500 g vanilluskyr
 • 400 ml rjómi, þeyttur
 • 2 msk flórsykur
 • 1 vanillustöng

Aðferð:

 1. Þeytið rjóma, blandið skyrinu varlega saman við og sigtið flórsykur út í.
 2. Skerið vanillustöng í tvennt eftir endilöngu og skafið fræin innan úr henni, bætið þeim út í skyrfyllinguna og hrærið öllu vel saman.
 3. Hellið fyllingunni ofan á piparkökubotninn og kælið, best er að kæla kökuna í 3 -4 klst eða yfir nótt.
 4. Dreifið saltaðri karamellusósu yfir kökuna áður en þið berið hana fram og njótið vel.

Söltuð karamellusósa

 • 150 g sykur
 • 4 msk smjör
 • 1 dl rjómi
 • sjávarsalt á hnífsoddi

Aðferð:

 1. Bræðið sykur á pönnu við vægan hita, best að hafa alls ekki háan hita og fara hægt af stað.
 2. Takið pönnuna af hellunni þegar sykurinn er allur bráðinn og bætið smjörinu saman við í nokkrum skömmtum.
 3. Hellið rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er orðin þykk og fín.
 4. Í lokin bætið þið saltinu saman við.
 5. Leyfið sósunni að kólna alveg áður en þið hellið henni yfir skyrkökuna.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *