Frönsk súkkulaðikaka með silkimjúkri karamellusósu

Vikan flaug hratt og örugglega, ég sinnti blogginu mjög lítið í vikunni en ég var að klára misserisverkefni í skólanum sem átti hug minn allan. Ég og hópurinn minn rannsökuðum hvernig íslensk fyrirtæki nota Snapchat í sínu markaðsstarfi, virkilega áhugaverð rannsókn að okkar mati og höfðum við gaman af því að vinna hana (á köflum langaði okkur líka til þess að gefast upp, haha).
Helgarfríið hefur þess vegna verið einstaklega ljúft, að hafa ekki stórt verkefni hangandi yfir sér er býsna gott og gaman að geta verið með fjölskyldunni. Ég ætla líka að baka þessa köku hér sem ég gjörsamlega elska og ég veit að fólkið mitt gerir það líka. Það kannast nú flestir við uppskriftina að frönsku súkkulaðikökunni sem er bæði einföld og hriklega góð, en prófið hana endilega með þessari karamellusósu sem bráðnar í munni… berið kökuna fram með ferskum hindberjum en þau fara einstaklega vel saman með súkkulaði.

Frönsk súkkulaðikaka með karamellusósu

Botn:

  • 200 g sykur
  • 4 egg
  • 200 g suðusúkkulaði
  • 200 g smjör
  • 1 dl hveiti
Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C (blástur).
  2. Þeytið sykur og egg saman þar til blandan verður létt og ljós.
  3. Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita.
  4. Blandið hveitinu saman við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin.
  5. Smyrjið bökunarfom eða setjið (eins og mér þykir best) bökunarpappír í botninn á forminu og hellið deiginu í formið.
  6. Bakið kökuna í 30 mínútur.

Kremið

150 g suðusúkkulaði
70 g smjör
2-3 msk síróp

Aðferð – krem:

Látið allt saman í pott og bræðið saman við vægan hita. Kælið bráðina svolítið og berið hana síðan á kökuna þegar hún hefur kólnað.

Ég vona að þið eigið góðan sunnudag framundan kæru vinir.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *