Silkimjúkur súkkulaðibúðingur

Ég held áfram að deila með ykkur uppskriftum að girnilegum eftirréttum, fyrst ég er nú byrjuð! Um helgina var ég í miklu eftirréttastuði, það er í alvörunni hægt að vera í stuði fyrir ákveðnum réttum 🙂 Ég ákvað að búa til þennan einstaklega góða súkkulaðibúðing sem er í miklu uppáhaldi hjá manninum mínum honum Hadda. Þetta er líklega mest „save“ eftirréttur sem ég veit um, en það er mjög erfitt að klikka á þessari uppskrift og öllum finnst súkkulaðibúðingur góður, ég þori eiginlega að lofa því. Ég hef að minnsta kosti ekki hitt þann sem finnst súkkulaði vont 🙂

Ef þið eruð í stuði fyrir súkkulaði um jólin þá mæli ég eindregið með þessum eftirrétt.

Silkimjúkur súkkulaðibúðingur

 • 40 g smjör
 • 240 g súkkulaði (til dæmsi suðusúkkulaði)
 • 300 ml rjómi
 • 3 egg
 • 2 msk sykur
 • 1 tsk vanilla

Aðferð:

 1. Bræðið smjör, saxið súkkulaði smátt og setjið út í pottinn með smjörinu. Bræðið súkkulaðið við vægan hita. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar þegar súkkulaðið er bráðnað og kælið mjög vel.
 2. Þeytið rjóma og leggið til hliðar.
 3. Stífþeytið eggjahvítur og sykur, bætið sykrinum saman við í tveimur skömmtum.
 4. Setjið þrjár eggjarauður út í súkkulaðiblönduna og hrærið vel, því næst hellið þið súkkulaðiblöndunni saman við stífþeyttan marensinn og blandið varlega saman.
 5. Í lokin er rjómanum bætt saman við og einni teskeið af vanillu.
 6. Hellið súkkulaðibúðingnum í eina stóra skál eða skiptið honum á milli í litlar skálar.
 7. Kælið í lágmark þrjár klukkustundir en best yfir nótt.
 8. Berið súkkulaðibúðinginn gjarnan fram með ferskum berjum, hindber eru til dæmis fullkomin með súkkulaði.

 

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *