Nauta carpaccio með rjómalagaðri piparrótarsósu

Uppáhalds forrétturinn minn er án efa nauta carpaccio og ég elska hvað það er auðvelt að útbúa þennan rétt. Lykillinn er eins og alltaf, að velja bestu hráefnin og að þau fái að njóta sín. Gott nautakjöt, úrvals ólífuolía, góður parmesan og góð piparrótarsósa. Lúxus skyndibiti ef svo má að orði komast, þið eruð sennilega 10 mínútur frá byrjun til enda að útbúa réttinn.

Það er ekki að ástæðulausu að þessi réttur var borin fram sem forréttur í brúðkaupinu okkar, ég gjörsamlega elska hann.

Nauta carpaccio með rjómalagaðri piparrótarsósu

Fyrir 4

 • 400 g nautalund
 • góð ólífuolía
 • salt og pipar
 • klettasalat
 • sítróna
 • parmesan ostur
 • 100 g ristaðar furuhnetur

Aðferð:

 1. Hreinsið nautalundina mjög vel og skerið í eins þunnar sneiðar og þið getið. (það er gott ráð að setja lundina í frysti í 30 – 40 mínútur áður, en með því er enn betra að skera kjötið þunnt niður).
 2. Fletjið kjötið út með kökukefli og leggið á diska.
 3. Stráið salti og pipar yfir kjötið, dreipið góðri ólífuolíu yfir og kreistið smá sítrónusafa yfir kjötið í lokin.
 4. Ristið furuhnetur á pönnu.
 5. Skolið og þerrið klettasalat, leggið salatið yfir kjötið.
 6. Rífið niður parmesan ost og stráið ristuðum furuhnetum yfir réttinn.
 7. Í lokin sprautið þið piparrótarsósunni á diskana eða mótið fallegar kúlur með teskeiðum.
 8. Berið strax fram og njótið!

Piparrótarsósa

 • 1 dl rjómi
 • salt og pipar
 • 3 tsk piparrótarmauk
 • 1/2 tsk hunang

Aðferð:

 1. Þeytið rjóma, bætið piparrótarmaukinu og hunangi saman við.
 2. Kryddið til með salti og pipar.
 3. Setjið sósuna í sprautupoka og sprautið á diskana, eða notið tvær teskeiðar og mótið fínar kúlur.

Þessi fallega lund var notuð bæði í carpaccio og nautasteik með bernaise.

Þetta var kvöldmaturinn eitt kvöldið, ég fór svöng inn í Hagkaup og mig langaði gjörsamlega í allt! Haddi og Ingibjörg Rósa fengu nautasteik með bernaise sósu og ég hringdi í mömmu og systur mína og fékk þær til þess að koma og borða með mér. Sátum lengi, borðuðum í rólegheitum og fengum okkur smá rauðvín með.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *