Vanillu Créme Brulée uppskrift

Þessi ofurvinsæla uppskrift slær alltaf í gegn og þá sérstaklega um jólin, ég tengi hana að minnsta kosti við jólahátíðarnar og mér finnst hún mjög mikið spari. Ég prófaði að búa til Créme Brulée í fyrsta sinn um daginn og það kom mér á óvart hversu einföld hún er. Það eina sem skiptir mestu máli er að kæla eftirréttinn vel og best að gera eftirréttinn degi áður en þið ætlið að bera hann fram, að vísu þykir mér slíkar uppskriftir algjör snilld og það getur sparað smá stress að vera búin að undirbúa hluta af matnum degi áður.

Silkimjúkur vanillubúðingur með stökkum sykri ofan á… einfaldlega of gott til þess að prófa ekki!

Vanillu Créme Brulée

Fyrir 6 – 8

 • 500 ml rjómi
 • 1 vanillustöng
 • 1 tsk vanillusykur
 • 6 eggjarauður
 • 100 g sykur + meiri sykur í lokin ca. tsk ofan á hvert form

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 150°C (blástur)
 2. Skerið vanillustöng í tvennt eftir endilöngu og skafið fræin innan úr henni.
 3. Hellið rjóma í pott, bætið vanillufræjum og stöng í pottinn og hitið að suðu. Lækkið hitann og leyfið rjómanum að malla í fimm mínútur.
 4. Þeytið eggjarauður og sykur þar til blandan verður létt og ljós.
 5. Hækkið aftur hitann þegar rjóminn er búinn að malla í fimm mínútur og náið upp suðu, sigtið rjómablönduna og hellið henni saman við eggjablönduna. Hrærið vel í og skiptið niður í lítil form, þessi uppskrift dugir í sex til átta form eða eitt stórt form.
 6. Setjið formin í eldfast mót og hálffyllið formið með heitu vatni. Vatnið á að ná upp að miðju litlu Créme Brulée formanna, með því að fylla eldfasta móti með heitu vatni tryggir það jafnari bakstur á eftirréttinum.
 7. Bakið við 150°C í 50 – 55 mínútur.
 8. Kælið eftirréttinn MJÖG vel áður en þið ætlið að bera hann fram, best er að gera hann deginum áður og kæla hann í ísskáp á meðan.
 9. Stráið smávegis af sykri yfir hvert mót og bræðið, þið getið notað sérstakt eldhúslogsuðutæki eða einfaldlega með því að setja undir grillið í ofninum (fylgist mjög vel með, það tekur nefnilega enga stund fyrir sykurinn að bráðna).

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *