Í gærkvöldi var ég með kjúklingasalat í matinn og það smakkaðist mjög vel svo ég verð að deila uppskriftinni með ykkur. Matarmikil salöt eiga vel við á sumrin, það tekur enga stund að búa til gott salat og sniðug leið til þess að nota þau hráefni sem eru til í ísskápnum hverju sinni. Það eru ótal möguleikar í salatgerð og það er um að gera að prófa sig áfram, allt er vænt sem vel er grænt. 🙂
Pestókjúklingasalat
fyrir fjóra
1 – 2 msk ólífuolía
2 hvítlauksrif, pressuð
3 – 4 kjúklingabringur
3 – 4 msk rautt pestó
1 poki blandað salat
1 agúrka
1 mangó
1 meðalstór rauðlaukur
1 askja kirsuberjatómatar
fetaostur, magn eftir smekk
balsamikedik, magn eftir smekk
salt og nýmalaður pipar
radísur
graskersfræ, ristuð
Ég notaði þetta góða pestó. |
Aðferð:
1. Hitið olíu við vægan hita og steikið kjúklinginn í olíu, bætið hvítlauknum saman við á pönnuna og kryddið með pipar og jafnvel einhverju góðu kryddi sem þið eigið sem ykkur finnst gott á kjúkling. Bætið pestóinu saman við og örlitlu vatni, leyfið þessu að malla í smá stund.
2. Skolið grænmetið vel og skerið smátt, blandið öllu saman í skál. Hellið balsamikediki yfir og hrærið vel í, ég læt vel af fetaosti í þetta salat en það er auðvitað smekksatriði. Þið getið notað hvaða ost sem ykkur dettur í hug það er t.d. mjög gott að hafa geitaost og camenbert í þessu salati. Þegar ég nota fetaost þá læt ég líka svolítið af olíunni í krukkunni fylgja með í salatið.
3. Setjið kjúklinginn saman við og hrærið vel í, kryddið til með smá salti og pipar. Sáldrið nokkrum ristuðum graskersfræjum yfir salatið að lokum. Berið salatið fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.
Þetta salat var sérstaklega gott og heppnin var með mér að það var smá afgangur svo nú á ég dýrindis hádegisverð, mér finnst köld kjúklingasalöt ofsalega góð. Ég mæli hiklaust með að þið prófið þessa uppskrift, hún er bæði einföld og svakalega góð.
Ég vona að mánudagurinn ykkar fari vel af stað, ég er búin að skrifa mikið í morgun og sitja alltof lengi við tölvuna. Ætla að fá mér kjúklingasalatið góða eftir smá stund og fara síðan út í göngutúr, smá frískt loft og halda síðan áfram að skrifa… 🙂
xxx
Eva Laufey Kjaran