Laxa tacos.

Mér finnst mjög gott að hafa fisk tvisvar til þrisvar sinnum í viku og eftir að ég byrjaði að hafa fisk oft þá hef ég prófað marga góða fiskrétti og þessi réttur er einn af mínum uppáhalds. Þið sem eruð mikið fyrir taco ættuð að prófa þessa uppskrift en það kemur mjög á óvart hvað fiskur er góður í taco.
Laxa tacos!
Fyrir þrjá til fjóra

Uppskrift. 

 • 600 – 700 g lax, skorinn í litla teninga
Kryddlögur
 • 2 msk. Olía 
 • 1 tsk. paprikukrydd
 • 1/2 tsk. cummin krydd
 • salt og pipar, magn eftir smekk 
 • 1 msk. smátt saxað kóríander 
 • 3 – 4  smátt söxuð hvítlauksrif
 • 1/2 chilialdin, fræhreinsað og smátt skorið
Aðferð: 
Blandið öllu saman í skál. Hreinsið fiskinn og skerið í litla teninga, blandið fiskinum vel saman við kryddlöginn. Best er að geyma fiskinn í 2 – 3 klst í kæli. 
Steikið fiskinn í örfáar mínútur á pönnu við miðlungshita. Þegar fiskurinn er klár þá setjið þið hann í skál og kreistið safa úr 1/2 límónu (lime) yfir. Saxið kóríander, magnið fer eftir smekk og dreifið yfir fiskinn. Það getur líka verið gott að sáldra smávegis af salti og pipar yfir.
Mangósalsa. 

 • 1 ferskt mangó í teningum
 • 1 rauðlaukur, meðalstór fínsaxaður
 • ½ agúrka, smátt skorin
 • 10 kirsuberjatómatar, smátt skornir
 • 1 msk fínsaxaður kóríander
 • 1 meðalstór lárpera
 • safi og rifinn börkur af ½ límónu (lime)
 • 1 tsk gróft salt
 • Ferskmalaður svartur pipar, magn eftir smekk

Aðferð: Blandið öllu sem er í uppskriftinni vel saman og geymið í kæli í 30 mínútur.
Hitið takkóskeljar í ofni samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, þið getið auðvitað notað heilhveitivefjur líka. Berið fiskinn fram í takkóskeljum með salati t.d. spínati, mangósalsa, rifnum osti og sýrðum rjóma. Það er líka gott að saxa niður kóríander og sáldra yfir í lokin. Ég er mjög hrifin af kóríander en það er auðvitað smekksatriði. 
 Njótið vel!
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *