Grænmetispítsa

Heimagerðar pítsur eru að mínu mati langbestar. Þegar við vorum yngri þá var mamma dugleg að baka pítsur og við fengum að setja áleggið á, hver fékk að velja sitt álegg og það var svolítið sport. Það góða við heimagerðar pítsur er að við stjórnum því hvað fer í deigið og hvað fer ofan á pítsurnar. Það er ótrúlega einfalt að baka pítsu og tekur sennilega styttri tíma en að panta pítsu á pítsustað. Svo er það nú líka hollara að gera þetta sjálfur, eins og allt annað. Ég sá svo girnilega uppskrift að pítsabotn á www.cafesigrun.com og sá botn er í miklu eftirlæti hjá mér. Ég ætla að deila ljúffengri grænmetispítsu með ykkur í dag.
Einfalt, fljótlegt og ljúffengt. 

Pítsabotn frá CafeSigrún
Botn sem dugir fyrir 2  – 3 
250 spelt (ég blanda saman grófu og fínmöluðu spelti)
1,5 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk sjávarsalt
1 tsk. pizzakrydd t.d. frá Pottagöldrum
0,5 tsk oreganó
200 ml volgt vatn
1 msk. kókosolía
  • Blandið saman í stóra skál; spelti, vínsteinlsyftidufti, oregano, pizzakryddi og salti. Hrærið vel. Blandið vatni og kókosolíu saman við. Hnoðið lauslega.
  • Blandið vel saman og hnoðið lauslega.Ef deigið er of blautt má setja meira spelti út í þannig að hægt sé að fletja með kökukefli.
Setjið spelt á borð (eða bökunarpappír) og fletjið deigið þunnt með kökukefli.

  • Einnig má fletja deigið út í ferkantaða ofnskúffu (með bökunarpappír undir).
  • Bakið við 150°C í um 15 mínútur eða þangað til brauðið er farið að dökkna og aðeins stökkt í köntunum. Pizzabotninn ætti að vera tilbúinn fyrir sósu og álegg.
Sósa og álegg.

Pizza sósa
1/2 laukur
1 hvítlaukur
2 msk ólífuolía
2 dósir saxaðir tómatar
1 tsk basilika
1/2 tsk oreganó
salt og pipar eftir smekk
1 tsk agave síróp
Mýkið lauk og hvítlauk í olíu á pönnu við vægan hita, bætið niðursoðnum tómötum við. Látið malla í nokkrar mínútur, bætið síðan  salti og pipar saman við. Að lokum fer  basilika,oreganó og agave síróp saman við. Leyfið þessu að malla í smá stund og setjið síðan allt saman í matvinnsluvél, þess þarf auðvitað ekki ef þið viljið hafa sósuna grófa.
Álegg. 
Auðvitað er hver og einn með sínar óskir hvað varðar álegg en ég mæli með þessu áleggi sem ég nefni hér fyrir neðan, ég fékk pítsu með þessu áleggi í matarboði um daginn og ég var ótrúlega hrifin. Bragðmikil og góð pítsa. 
Kúrbítur
tómatar
sveppir
fersk basilíka
avókadó, vel þroskað
rifinn mozzarella ostur
fetaostur
Ég skar niður það grænmeti sem ég vildi á mína pítsu, lét sósu á pítsabotninn og dreifði rifnum osti yfir. Raðaði síðan grænmetinu ofan á pítsuna og kryddaði til með salti og pipar. Ath. að ferska basilíkan, avókadó og fetaosturinn eiga ekki að fara á pítsuna fyrr en hún er tilbúin. Setjið pítsuna því næst inn í ofn við 150°C í 8 – 10 mínútur. 

Ég geri mér oft hvítlauksolíu og dreifi vel af henni yfir pítsuna, það er einstaklega ljúffengt. 
 Ég mæli svo sannarlega með þessari pítsu kæru vinir og ég vona að þið njótið vel. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *