Fullkomið pasta á fimmtán mínútum og spínatsalat með truffluolíu a’la Sushi Social

Ég elska máltíðir sem eiga það sameiginlegt að vera fremur einfaldar og fljótlegar, sérstaklega á virkum dögum þegar ég hef ekki jafn mikinn tíma til þess að dúllast í eldhúsinu. Ég fór svöng inn í Hagkaup í síðustu viku og greip eitt og annað sem mig langaði í. Ég var með pasta á heilanum, eins og svo oft áður og þegar ég sá girnilegt ferskt pasta  varð þaðf yrir valinu ásamt dýrindis aspas og öðru góðu hráefni. Meðlætið var ofur einfalt, spínatsalat með truffluolíu a’la Sushi Social, hafið þið ekki örugglega smakkað það? Ég fæ í alvöru vatn í munninn að hugsa um þetta salat og reynt að „stæla“  það hér heima. Rétt eins og pastarétturinn er salatið ofureinfalt og svo gott að þið eigið ekki eftir að trúa því… nú fæ ég mér ekki spínat án þess að sáldra truffluolíu yfir það. Töfrar í þessari olíu!

Ravíoli með steiktum aspas og smjörsósu

 • Ferskt ravíolí (ef þið hafið tíma getið þið útbúið sjálf frá grunni, uppskrift hér) *Magn eftir fjölda
 • 1 aspasbúnt
 • 3 – 4 msk smjör
 • 1 msk fersk söxuð basilíka
 • salt og pipar
 • Nýrifin parmesan ostur

Aðferð:

 1. Skerið neðsta partinn af aspas frá og sjóðið í létt söltu vatni í 3 mínútur, þerrið vel og sjóðið pasta í sama vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
 2. Skerið aspas í litla bita og steikið upp úr smjöri á pönnu, kryddið til með salti og pipar. Dreifið basilíkunni yfir í lokin og steikið þar til aspasinn er orðinn stökkur.
 3. Berið strax fram með ravíoli og nóg af parmesan!

Spínatsalat með truffluolíu a’la Sushi Social

 • Spínat
 • Tómatar
 • Truffluolía
 • Salt og pipar
 • Parmesan ostur

Aðferð:

 1. Skolið spínatið og þerrið vel.
 2. Skerið tómata í litla bita og blandið saman við spínatið.
 3. Hellið truffluolíu yfir salatið – það þarf alls ekki mikla olíu, það er betra að byrja á að setja minna en meira.
 4. Kryddið salatið með salti og pipar.
 5. Í lokin rífið þið niður parmesan sem þið dreifið yfir salatið áður en þið berið það fram.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *