Besta skúffukakan.

Í dag á hann Haddi minn afmæli, tuttuguogfjögurra ára í dag. Það er samt svo svo lygilega stutt síðan að við vorum átján ára.  Ég fór snemma á fætur og bakaði þessa skúffuköku sem er í miklu uppáhaldi hjá honum. Við erum sammála um að þessi kaka sé með þeim betri, hún er svo mjúk og dásamleg. Það var virkilega huggulegt að fá sér kökusneið með morgunkaffinu, það má nú aldeilis á tyllidögum. 
 Næst þegar súkkulaðilöngunin kemur yfir ykkur þá mæli ég svo sannarlega með að þið prufið þessa köku, þið verðið ekki svikin. Hún er einföld, fljótleg og virkilega ljúffeng. 
Besta skúffukakan.

5 egg 
3 dl sykur
5 dl hveiti
1 1/2 dl vatn
3 msk kakó
2 msk sterkt kaffi, uppáhellt
300 g smjör
1 tsk vanillusykur
3 tsk lyftiduft
100 g dökkt súkkulaði
Aðferð: 
Hitið ofninn í 200 °C 
1. Þeytið saman egg og sykur í nokkrar mínútur, þar til blandan verður létt og ljós
2. Sigtið þurrefnin saman og bætið saman við
3. Bræðið smjörið og bætið því saman við deigið. 
4. Bætið vatninu og kaffinu saman við að lokum. 
5. Smyrjið stórt eldfast mót eða ofnskúffu, mér finnst langbest að setja bökunarpappír líka. Þá verður mjög auðvelt að ná kökunni upp úr forminu eða skúffunni. 
6. Hellið deiginu í formið.
7. Grófsaxið dökka súkkulaðið og dreifið yfir. 
8. Bakist við 200 ° C í 17 – 20 mínútur. 
Kælið kökuna áður en þið setjið á hana krem. 
Einfalt súkkulaðikrem

100 g smjör, brætt
100 g flórsykur
3 msk sterkt kaffi, uppáhellt
3 – 4 msk kakó

Öllu blandað saman í hrærivél í nokkrar mínútur. 

Sáldrið yfir skrauti eða kókosmjöli. 
Fáið ykkur svo ískalda mjólk og njótið þess að borða kökuna. 
 Nú kallar skólinn svo ég ætla að drífa mig suður. Ég vona að þið eigið ljúfan dag kæru vinir. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

6 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *