Kjúklingur í mangóchutney með ristuðum möndluflögum.

 Veðrið er frekar ljúft í dag og þá er nú ekki annað hægt en að vera glaður. Á svona dögum er líka tilvalið að gera vel við sig í mat, þess vegna ætla ég að deila með ykkur uppskrift sem er í ótrúlega miklu uppáhaldi hjá mér. Kjúklingur í mangóchutney með ristuðum möndluflögum, það er eitthvað við mangóchutney sem fær mig til að brosa og gleðjast. Ég nota það mikið við matargerð, að vísu hef ég aldrei verið það dugleg að búa það til sjálf frá grunni en einn daginn þá ætla ég að prufa það en þangað til þá held ég áfram að kaupa tilbúið mangóchutney sem er líka mjög gott. Þegar ég elda þennan rétt þá miða ég við að það séu tveir til þrír bitar á mann, ég vil helst ekki nota kjúklingabringur vegna þess að þær eru ekki jafn bragðmiklar en þið getið auðvitað notað bringur ef þið viljið. Þessi uppskrift miðast á við tvo til þrjá manns. Njótið vel. 
Mangóchutney kjúklingaréttur.
1 – 2 msk olía
6 – 8 Kjúklingabitar
½ krukka mango chutney
1 peli rjómi 
(venjulegur eða matreiðslurjómi)
Karrí (ég nota ca. 2 msk)
½ kjúklingateningur
Salt og pipar eftir smekk
Möndlur 

Aðferð:

 1. Skolið kjúklingabitana mjög vel. 
2. Hitið olíu við vægan hita og brúnið kjúklingabitana á öllum hliðum í smá stund, kryddið til með salti, pipar og karrí.
 3. Setjið kjúklingabitana í eldfast mót.
 4. Blandið rjóma og mangó chutney vel saman í potti við vægan hita
 5. Hrærið vel saman og bætið karrí, kjúklingatening, salti og pipar saman við. Það er auðvitað mjög mikilvægt á þessum tímapunkti að þið smakkið ykkur til.  Leyfið sósunni að malla við vægan hita í fimm til sjö mínútur. 
 6. Hellið sósunni yfir kjúklingabitana og setjið inn í ofn við 180°C 35 – 40 mínútur. 
Ég get lofað ykkur því að þið eigið eftir að sveima í kringum ofninn því lyktin af réttinum er  dásamlega góð. 
 Ristið möndluflögur á  pönnu. 
 Berið réttinn fram með fersku salati, hrísgrjónum og sáldrið ristuðum möndluflögum yfir… og njótið.
 Mangóchutneysósa, kjúklingabitar og möndluflögur. Þessi samsetning er algjörlega frábær og ég vildi að þið gætuð fundið lyktina af réttinum í gegnum myndir því hún er ótrúlega góð og lokkandi!
Ég mæli svo sannarlega með þessum kjúklingarétt kæru vinir. Skjótist út í búð eftir vinnu/skóla, farið heim og setjið góða tónlist á fóninn, setjið upp betri svuntuna og njótið þess að dúlla ykkur í eldhúsinu. Svo það allra mikilvægasta, bjóðið fólkinu ykkar í mat og njótið þess að borða góðan mat í góðum félagsskap.
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *