Sænskir kanilsnúðar með glassúr

Sænskir kanilsnúðar eru sérlega góðir snúðar sem fanga augað. Í Svíþjóð er árlega haldin „kanelbullans dag“ þann 4 október. Október nálgast og því er tilvalið að setja á sig svuntuna og baka nokkra ljúffenga sænska kanilsnúða. 
Uppskriftirnar af sænskum kanilsnúðum eru ótal margar, ég var lengi vel að dúlla mér á internetinu að skoða uppskriftir. Ég fann eina sem mér leist mjög vel á,  ég átti til flest hér heima fyrir sem þurfti til þannig ég þurfti ekki að byrja á því að fara út í búð. Mér finnst alltaf svo ánægjulegt að sleppa við það. Að geta bara dúllað mér áfram í náttfötunum, bara svona týpískir huggulegir sunnudagar. 
Snúðarnir heppnuðust mjög vel að mínu mati og ég mæli með að þið prufið. 

Sænskir kanilsnúðar 

Deig :
           
15 dl hveiti      
1 bréf þurrger
135 g smjör
2 dl sykur
1 egg
4 dl mjólk
1 tsk vanilla extract 
smá salt 
Fylling : 

50 g sykur
100 g smjör
2 – 3 msk kanill (fer eftir því hvað þið viljið mikið kanilbragð)
Ofan á : 
1 egg
perlusykur 
Það tekur svolítinn tíma að útbúa þessa dásamlegu snúða svo það er nauðsyn að gefa sér góðan tíma. 
Aðferð:
Hitið mjólkina upp að 37°C (líkamshiti) og bætið þurrgerinu saman við, blandið þessu vel saman. 
Leggið til hliðar og náið ykkur í aðra skál. 
Setjið hveiti, sykur, salt, egg, vanillu extract og smjör sem á að vera við stofuhita saman í skálina.
 Best er að nota hendurnar til þess að blanda þessu vel saman. 
Hendurnar verða verulega klístraðar og fínar en það gerir nú ekkert til. Hellið mjólkurblöndunni í pörtum saman við hveitiblönduna og blandið þessu vel saman með höndunum. 
Því næst setjið þið deigið á borðið og hnoðið almennilega saman. Mér finnst gott að strá örlitlu hveiti á borðið áður en ég læt deigið á borðið. 
Setjið deigið aftur í skálina, breiðið röku viskustykki yfir og látið hefast í 30 – 40 mínútur. 
Þegar að deigið er búið að hefast þá skerið þið deigið í tvo bita. 
Fletjið deigið út og smyrjið fyllinguna á deigið. 
Ég hitaði smjörið í smá stund í potti, bræddi það ekki alveg en það var silkimjúkt. Bætti sykrinum og kanil saman við. Blandan á að vera svolítið þykk. 
Rúllið deiginu upp eða brjótið það saman og skiptið því upp í lengjur, það er ansi gaman að föndra svolítið með deigið. Sænsku kanilsnúðarnir eru svo fallegir og það eru mörg vidjó á netinu sem sýna ýmsar aðferðir til þess að gera fallega snúða. Hvað sem þið gerið, þá verða þeir nú alltaf jafn góðir. 
Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, raðið snúðunum á pappírinn og leggið viskustykki yfir þá, rakt viskustykki. Leyfið þeim að standa í ca. 30 mínútur. 
Að lokum pískið þið egg og penslið snúðana. Ég stráði smá perlusykri yfir snúðana. 
Bakið þá við 200°C í 8 – 10 mínútur. 
Það er fátt sem jafnast á við kanilsnúðalyktina sem ilmar um heimilið… 
Ég get eiginlega aldrei beðið eftir að þeir kólni og stelst alltaf í smá bita, vel mér þá auðvitað girnilegasta snúðinn. 🙂 
Persónulega þá finnst mér snúðarnir bestir bara nýkomnir út úr ofninum með ískaldri mjólk en þeir eru líka ferlega góðir með glassúr. 
Ég nota enga sérstaka uppskrift þegar ég geri glassúr, dassa mig bara áfram. 
En það sem ég nota alltaf er flórsykur, mjólk og vanillu extract. Dass af flórsykri, dass af mjólk og dass af vanillu extract eða vanilludropum ef þið eigið ekki vanillu extract. Blandið þessu öllu vel saman og úr þessu verður til dásamlegur glassúr. 
Ég spara alls ekki glassúrinn á mína snúða… 

                    Það er hægt að bæta við hverju sem er í þessa snúða t.d. berjum og súkkulaði. 

Sunnudagskaffið verður ekki betra að ég held. Ég bakaði svolítið mikið svo ég frysti nokkra snúða, það er ansi ánægjulegt að eitthvað bakkelsi í frysti. Gaman að gefa gestum góða snúða svo er nú líka bara ansi huggulegt að fá sér einn og einn snúð af og til… 
Ég vona að þið eigið ljómandi fínan sunnudag 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

8 comments

Leave a Reply to Anonymous - Cancel Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *