Um mig

Hver er Eva Laufey?

Ég heiti Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir og hef bloggað um mat í rúmlega fimm ár. Það var aldrei planið að gerast matarbloggari en fljótlega eftir að ég opnaði bloggið mitt þá fór ég að birta myndir af mat sem fengu góðar undirtektir hjá fjölskyldu og vinum. Ég ákvað þess vegna að gera meira af því og birta uppskriftir með í leiðinni, svo fór boltinn að rúlla og bloggið varð að matarbloggi.

Það má segja að bloggið hafi umturnað öllum mínum framtíðaráformum en ég hef á þessum fimm árum starfað nær eingöngu við matartengda hluti. Ég hef starfað sem lausapenni hjá Gestgjafanum, unnið að auglýsinum sem matarstilísti, gefið út tvær matreiðslubækur og starfa sem dagskrárgerðarmaður hjá 365 miðlum og eru þáttaseríurnar orðnar sjö talsins og allar eru þær um mat að sjálfsögðu.

Samhliða starfinu er ég í viðskiptafræðinámi en með því að bæta við mig þeirri gráðu þá er ég að styrkja bloggið og það starf sem er í kringum það. Svo það er óhætt að segja að bloggið hafi veitt mér talsvert mikið af tækifærum sem ég er mjög þakklát fyrir.

Ég bý á Akranesi, er gift Haraldi Haraldssyni og eigum við eina dásamlega dóttur sem heitir Ingibjörg Rósa og er tveggja ára. Hún er strax mikill sælkeri svo ég er að gera eitthvað rétt í uppeldinu býst ég við.

Hér á blogginu reyni ég að deila öllu því efni sem ég er að vinna að og vona auðvitað að uppskriftirnar veiti ykkur innblástur í eldhúsinu. Það er mín einlæg von!

Takk fyrir innlitið.

undir_eva

Lýsing á mynd

Lýsing á mynd