Bananabrauð

Bananabrauð er í miklu eftirlæti hjá mér og það er vissulega svolítið sætt en þess vegna finnst mér brauðið henta einstaklega vel á helgum þegar við spegúlerum ekkert svakalega mikið í sykri, eða ég geri það alla vega ekki um helgar.  Ég smakkaði það fyrst þegar ég vann á sambýli hér á Akranesi fyrir nokkrum árum. Þá bökuðum við þetta brauð mjög oft og fengum aldei nóg af því. Það góða við þetta brauð er einfaldleikinn, það tekur enga stund að hræra í brauðið og það er rúmlega 50 mínútur í ofninum. Það kalla ég lúxus svo það er um  að gera að  hefja daginn á því að hræra í brauðið, skella því inn í ofn og dundast svo á náttfötunum þar til brauðið er klárt og fá sér svo morgunverð í rólegheitum. Nýbakað brauð með smjöri og osti, gerist það nokkuð betra?
 Bananabrauð 
 • 2 egg
 • 2 þroskaðir bananar
 • 60 g smjör
 • 2 dl sykur
 • 3 1/5 dl Kornax hveiti
 • 1 tsk vanillu extract (eða vanillusykur)
 • 1/2 dl mjólk
 • 2 tsk lyftiduft (ég nota vínsteinslyftiduft)
Aðferð:
 1. Hrærið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós.
 2. Bræðið smjörið við vægan hita og leggið til hliðar.
 3. Sigtið saman hveiti og lyftiduft a.m.k. tvisvar sinnum saman og blandið saman við eggjablönduna.
 4. Merjið banana og bætið saman við ásamt mjólkinni og smjörinu.
 5. Smyrjið form og hellið deiginu í formið, ég sáldra alltaf svolítið af haframjöli yfir en það er algjörlega valfrjálst.
 6. Bakið við 180°C í 45 – 50 mínútur.
Lyktin er svo dásamleg af nýbökuðu brauði.

 

Nýbakað brauð með smjöri og osti, dagurinn getur bara ekki farið betur af stað.
Ef þið viljið gera örlítið betur við ykkur þá getið þið bætt söxuðu súkkulaði saman við brauðið, þá er þetta hálfgerð kaka sem hægt er að bjóða upp á með kaffinu.
Virkilega ljúffengt.
Einfalt, fljótlegt og ljúffengt.xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *