Besta súkkulaðikakan með klassísku smjörkremi

 

Ef það er eitthvað sem hægt er að treysta á, þá er það
klassísk og dásamleg súkkulaðikaka með ljúffengu smjörkremi. Ég baka þessa köku
að lágmarki einu sinni í mánuði. Það er fátt sem jafnast á við nýbakaða
súkkulaðiköku með góðu kremi og ískaldri mjólk. Þessi súkkulaðikaka er án efa í
miklu uppáhaldi hjá mér, þegar ég kom heim úr skólanum á mínum yngri árum var
svo notalegt að finna kökuilminn taka á móti mér þegar að mamma var búin að
baka. Þetta er þó ekki uppskriftin sem mamma var vön að baka en þetta er engu
að síður þessi gamla og góða, dökkir súkkulaðibotnar með ljósu og silkimjúku
smjörkremi. Ég notaði þessa uppskrift fyrir botnanna, en uppskriftin er bæði
lygilega einföld og svakalega góð.
Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift, njótið vel.


Súkkulaðibotnar
 • 3 bollar Kornax hveiti
 • 2 bollar sykur
 • 3 egg
 • 2 bollar AB mjólk
 • 1 bolli bragðlítil olía (ekki nota ólífuolíu)
 • 5-6 msk. Gott kakó
 • 2 tsk. Lyftiduft
 • 1 tsk. Matarsódi
 • 2 tsk. Vanillu exctract eða vanillusykur.

 

Aðferð: Hitið ofninn í 180°C (blástur). Blandið öllum hráefnum saman og
hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið er orðið silkimjúkt. Smyrjið tvö lausbotna
form og skiptið deiginu niður í formin. Bakið við 180°C í 20 – 25 mínútur.
Tíminn fer auðvitað eftir ofnum, eins og alltaf. Gott er að athuga baksturinn
með því að stinga prjóni í kökuna, prjóninn á að koma hreinn út og þá er kakan
klár. Leyfið botnunum að kólna alveg áður en þið setjið á þá krem.
Klassískt og ómótstæðilegt smjörkrem.
 • 370 g. Flórsykur
 • 220 g. Smjör
 • 4 msk. Gott kakó
 • 2 msk. Mjólk eða rjómi
 • 2 tsk. Vanilla extract eða vanillusykur
 • 1 msk. Uppáhellt kaffi

 

Aðferð: Þeytið saman smjör við stofuhita og flórsykur í svolitla stund, því
næst fer annað hráefni og þeytið vel í nokkrar mínútur. Kremið verður
silkimjúkt ef þið þeytið það í 4 – 5 mínútur. Því lengur því betra verður
kremið, það er mín skoðun. Smyrjið kremi jafnt á milli botnanna og þekjið
kökuna svo með þessu gómsæta kremi. Ég reif niður súkkulaði með ostaskera og
notaði sem skraut, það kom vel út og það var ekki verra að fá litla
súkkulaðibita með kökunni.

 

 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

9 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *