Útihlaup, grænn boozt og hlauparáð fyrir byrjendur.

Mér finnst ferlega gaman að hlaupa, að vísu finnst mér ekkert sérlega gaman að koma mér í form. Þá er allt svo erfitt og ótrúlega erfitt að koma sér af stað, en um leið og maður hefur komist yfir ákveðið þrep, þegar maður finnur að maður hefur betra úthald og líkaminn styrkist þá líður manni vel. Það er svo ótrúlegt hvað hreyfing hefur áhrif á andlegu hliðina. Ég tók þá ákvörðun skömmu eftir áramót að koma mér í ágætt hlaupaform. Mig langar mjög mikið að hlaupa hálft maraþon í sumar, nú hef ég verið að hlaupa að einhverju viti í rúman mánuð og finn strax mun á mér.  Þetta kemur allt smám saman, góðir hlutir gerast hægt.


Ég er ekki að hlaupa til þess að grennast. Það er ekki mitt plan, ég vil heldur einbeita mér að því að styrkja líkamann minn og auka úthald. Í morgun þá fór ég rúma 7 km í blíðunni hér á Skaganum, það var mjög gott en það var fremur kalt. Í næstu viku stefni ég á 10 km útihlaup. 

Eftir hlaupin þá reyni ég að koma mér vel fyrir á dýnunni sem ég keypti á mjög góðu verði í N1 um daginn og geri nokkrar æfingar, það er ansi þægilegt að horfa á myndskeið á netinu af einföldum æfingum sem hægt er að gera heima við. Ég nota þessa dýnu eða bara handklæði til þess að liggja á. Geri nokkrar æfingar og teygi síðan vel á. 
 Ekkert betra en grænn og góður boozt eftir gott hlaup. Í þessum boozt er eftirfarandi: kíví, spínat, frosið mangó, banani, chia fræ, 1/4 tsk agave síróp og appelsínu trópí með aldinkjöti.
 Mig langar svo að benda ykkur á glæsilega vefsíðu sem Elísabet Margeirsdóttir sér um. Þar eru að finna upplýsingar um hlaup, mataræði og mjög góð hlauparáð fyrir byrjendur. Markmið  Elísabetu er að fræða og ráðleggja einstaklingum og hópum um heilsusamlegt matarræði og lífstíl. 

Elísabet bjó til fyrir mig hlaupaprógram sem ég hef fylgt og það er svo ótrúlega gaman að finna fyrir árangrinum. Það er stórkostleg tilfinning að geta hlaupið aðeins meira og meira í hvert skipti.  Vefslóðin er ; www.betanaering.is .


Nú ætla ég hins vegar að njóta þess að það er laugardagur í dag og fá mér eitthvað gott, var hugsa um pönnukökur með bláberjum. Er það ekki eitthvað? Ég vona að þið eigið ljúfan dag kæru vinir. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply to Anonymous - Cancel Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *