Trylltar súkkulaðibollakökur með saltkaramellukremi og piparkökumulningi

Ég hef sjaldan fengið önnur eins viðbrögð og þegar ég deildi mynd af þessum girnilegu og svakalega bragðgóðu bollakökum með saltkaramellukremi og piparkökumulningi. Ég verð að viðurkenna að þessar bollakökur eru með þeim betri sem ég hef smakkað, ég er alltaf rosalega hógvær. Þið vitið það, haha! Í alvöru talað, það er ekki margt sem getur klikkað þegar súkkulaði, söltuð karamella og piparkökur koma saman. Þið verðið einfaldlega að prófa þessar kökur, fyrr en síðar.

Súkkulaðibollakökur

ca. 30 stk (ef þið notið hvítu bollakökuformin sem fást í nánast öllum matvöruverslunum, þau eru aðeins minni en þessi hefðbundnu bollakökuform, þið sjáið á myndinni hvaða form ég er að tala um)

  • 7,5 dl hveiti
  • 5 dl sykur
  • 5 dl hrein AB mjólk
  • 2,5 ljós olía
  • 5 msk kakó
  • 1,5 tsk matarsódi
  • 3 tsk lyftiduft
  • 4 egg
  • 2 tsk vanilla
  • 100 g saxað suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C (blástur)
  2. Blandið öllum hráefnum saman í hrærivélaskál og þeytið saman í nokkrar mínútur eða þar til deigið er orðið slétt og fínt, mikilvægt að stoppa einu sinni til tvisvar og skafa meðfram hliðum til þess að allt deigið blandist vel saman.
  3. Saxið súkkulaði afar smátt og blandið saman við deigið í lokin.
  4. Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið við 180°C í ca. 15 mínútur
  5. Kælið kökurnar mjög vel áður en þið setjið á þær krem.

Himneskt súkkulaðikrem

  • 240 g smjör
  • 500 g flórsykur
  • 1 msk rjómi eða mjólk
  • 100 g brætt hvítt súkkulaði
  • 3 msk söltuð karamellusósa
  1. Þeytið smjör og flórsykur saman þar til blandan verður létt og ljós, það er best ef smjörið er við stofuhita annars er betra að hræra „upp“ í smjörinu í smá stund áður en þið bætið flórsykrinum saman við.
  2. Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði og hellið saman við smjörkremið ásamt rjóma og vanillu.
  3. Bætið þremur matskeiðum af saltaðri karamellusósu út í kremið og þeytið þar til kremið er orðið silkimjúkt. Það er mikilvægt að stoppa einu sinni til tvisvar og skafa meðfram hliðum á hrærivélaskálinni og halda síðan áfram að þeyta.

Söltuð karamellusósa

  • 200 g sykur
  • 4 msk smjör
  • 1 dl rjómi
  • 1/4 tsk sjávarsalt

Aðferð:

  1. Setjið sykur á pönnu og bræðið hann við vægan hita, það má helst ekki snerta sykurinn á meðan hann er að bráðna en ég veit að það er freistandi vegna þess að það kemur smá reykur.
  2. Þegar sykurinn er bráðnaður þá má taka pönnuna af hitanum og bæta smjörinu saman við, hrærið stanslaust í á meðan.
  3. Því næst hellið þið rjómanum saman við en þá má setja karamelluna aftur á hitann og þið verðið að hræra stanslaust þar til þið náið þeirri áferð sem þið viljið.
  4. Sjávarsaltið fer út í lokin.
  5. Hellið sósunni í krukku eða skál og leyfið henni að standa svolítið áður þið berið hana fram, en hún þykknar um leið og fær að kólna svolítið.

Sprautið kreminu ofan á bollakökurnar, dreifið smá karamellusósu yfir og myljið piparkökur sem þið sáldrið yfir kökurnar í lokin. Þessi piparkökumulningur er mjög mikilvægur og kökurnar verða fyrir vikið jólalegar.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *