Súkkulaðimús á þrjá vegu

 Ég elska jólafrí. Elska að geta dúllað mér á daginn við bakstur og huggulegheit. Nokkrir dagar eftir svo það borgar sig að nýta tímann vel.
Ég prufaði að gera súkkulaðimús í dag, æfing fyrir gamlárskvöld. Tókst ansi vel til. 
Súkkulaðimús (Fyrir ca. 8 manns.)
250 gr. Dökkt súkkulaði 
75 gr. Smjör
2 – 3 msk. Kalt sterkt uppáhellt kaffi
9 Eggjahvítur 
150 gr. Sykur

 Byrjum á því að bræða súkkulaði og smjör saman við vægan hita.

 Þegar að súkkulaðið er bráðnað þá tökum við pottinn af hellunni og bætum kaffinu saman við og hrærum vel í. Látum súkkulaðið kólna á meðan að við þeytum eggjahvíturnar.

 Eggjahvíturnar. Ég keypti mér eggjahvítur í brúsa , um það bil 30 eggjahvítur í hverjum brúsa. Mjög þæginlegt.
Svo er bara að stífþeyta eggjahvíturnar og bæta sykrinum smám saman við, í þremur skömmtum.

 Ljúffengt ekki satt?
 Þá er að blanda súkkulaðinu saman við eggjablönduna, í þremur pörtum.
Mikilvægt að blanda þessu varlega saman með sleif. 
 Svo er bara að hella þessu í skálar, falleg glös eða hvaðeina sem hentar ykkur. Inn í ísskáp í lágmark tvær klukkustundir.
Ég lék með smávegis með þessa einföldu súkkulaðimús. 

 Dökk súkkulaðimús og hvítsúkkulaðismús. 
Það er nánast sama ferlið með hvítu-súkkulaðimúsina.
Við sleppum kaffinu en bætum fræum úr einni vanillustöng saman við eggjablönduna.
Mér finnst voða gott að blanda dökku og hvítu súkkulaði saman.
Í fyrsta glasið lét ég dökku súkkulaðimúsina á botninn, helmingi minna af hvítu músinni og síðan sigtaði ég góðu kakó yfir, lét fáein bláber og smá súkkulaðiskraut.
Draumur í dós.
Í hinum tveimur glösunum var ég með venjulega dökka súkkulaðimús, sigtaði góðu kakó yfir og lét súkkulaðiskraut, sama sagan með þriðja glasið en rúsínan í pylsuendanum var skvetta af Amarula  líkjöri.
Þið ráðið því hversu mikið þið setjið en það var svakalega gott bragð og agalega sniðugt á góðu gamlárskvöldi að bera fram í boðum.
Einfalt, fljótlegt og ljúffengt. 
Svo er súkkulaðimús alltaf góð með þeyttum rjóma og allskyns ferskum ávöxtum.
Súkkulaðimús er indæl í maga eftir þunga máltíð. 
Njótið 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

3 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *