Shepherd’s Pie er einn af þekktustu réttum Breta. Ég get ekki sagt að bresk matargerð heilli mig svakalega mikið en þessi réttur hefur svo sannarlega heillað mig. Þegar að ég bjó í Bretlandi þá labbaði ég oft framhjá matsöluskála sem seldi margar gerðir af bökum. Í hádeginu þá sat ég stundum á bekk og fylgdist með mannfjöldanum sem myndaðist fyrir framan þennan litla matsöluskála sem einungis seldi bökur í take-away. Ég pældi mjög mikið í því hvað væri svona sérstakt við þessar bökur því fyrir mér voru þær ekkert svakalega spennandi.
Ég ákvað einn daginn að prufa eina böku á köldum degi, því þetta er svo sannarlega matur sem yljar manni á köldum dögum. Bakan smakkaðist dásamlega og nú nærri þremur árum síðar þá er ég loksins búin að elda hana hér heima fyrir, með ágætum árangri. Bakan smakkaðist dásamlega og ég fór aftur til Bretlands í huganum í eitt augnablik.
Ég fann þessa uppskrift á netinu en breytti henni svolítið, það er hægt að bæta við bökuna allskyns grænmeti og kryddum. Ég mæli með að þið skoðið ykkur um á netinu, það eru til ótrúlega margar útfærslur af þessum rétt.
Sheperd’s Pie
Þessi uppskrift miðast á við þrjá til fimm manns.
500 g nautahakk
ólífuolía
3 gulrætur
1 meðalstór laukur
3 hvítlauksgeirar
4 tsk tómatpúrra
1 1/2 dl rauðvín
2 dl kjúklingasoð (soðið vatn + kjúklingateningur)
væn skvetta af Worchestershiresósu
2 tsk rósmarín
nokkur lárviðarlauf
salt og nýmalaður pipar
1. Hitið olíu á pönnu og steikið hakkið, kryddið til með salti og pipar.
2. Rífið niður gulrætur, hvítlauk og lauk með rifjárni. 3. Bætið öllu öðru saman við og blandið þessu mjög vel saman. Smakkið ykkur auðvitað til.
4. Leyfið þessu að malla við vægan hita í 10 – 15 mínútur, ég blanda lárviðarlaufum saman við en tek þau svo í burtu þegar að ég læt hakkblönduna í eldfast mót.
5. Kartöflumúsin gegnir lykilhlutverki í þessum rétt. Mér finnst best að gera karöflumús í hrærivél.
Kartöflumús með Parmesan
750 g kartöflur
2 eggjarauður
duglega af salti og pipar
60 g rifinn parmesan ostur
2 msk smjör
smá skvetta af mjólk
Sjóðið kartöflur og afhýðið. Setjið allt saman í hrærivél og hrærið vel saman í 2 – 3 mínútur. Þá ætti kartöflumúsin að vera klár.
6. Setjið hakkblönduna í eldfast mót. 7. Setjið karöflumúsina ofan á hakkblönduna.
8. Smyrjið vel yfir hakkblönduna 9. Sáldrið að lokum duglega af ferskum parmesan ost yfir.
Setjið réttinn inn í ofn við 180°C í 20 – 25 mínútur.
Lyktin er dásamleg af þessum rétt. Mér finnst þessi réttur svo heimilislegur og algjörlega réttur sem maður á að njóta á köldum vetrardögum. Það er virkilega auðvelt að útbúa þennan rétt og ég er handviss um að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum með að prufa hann.
Berið réttinn fram með fersku salati og ef til vill góðu rauðvínsglasi.
Ég vona að þið njótið vel kæru vinir.
xxx
Eva Laufey Kjaran