Rauðrófusafi sem bætir og kætir

 Vertu velkomin mánudagur… vikan lítur vel út og margt skemmtilegt framundan. Mér finnst mánudagar svo fínir, í morgun er  ég búin að skipuleggja vikuna og búa mér til dásamlegan safa.

 Í vikunni skila ég af mér öllum myndum fyrir bókina og fyrsti þátturinn „Í eldhúsinu hennar Evu“ verður tekinn upp. Ég er með mörg fiðrildi í maganum, þetta verður skemmtileg vika með fjölbreyttum verkefnum. 

Ég átti nú svolítið erfitt með að vakna í morgun, svona eins og gengur og gerist á mánudögum eftir helgina. Ég byrjaði daginn á því að búa mér til safa, sem er svo góður og hressandi. Ég á ekki safapressu og nota bara blandarann minn, það virkar vel. Hér kemur uppskriftin, ég mæli svo sannarlega með að þið prófið. 
Rauðrófusafi 
600 ml ískalt vatn 
3 meðalstórar gulrætur
2 litlar rauðrófur 
5 cm engiferrót
1 sítróna
1 appelsína
smávegis af grænkáli 
Aðferð:
Flysjið og skerið grænmetið fremur smátt. Setjið vatn í blandarann og bætið hráefninu saman við, einu í einu. Í þeirri röð sem sést hér að ofan. Blandið í nokkrar mínútur, það er gott ráð að halda aðeins við lokið á blandaranum því þetta er mikið magn og það væri verra ef rauðrófusafinn myndi skvettast upp um alla veggi. 😉 
Hér er safinn tilbúinn, sjáið hvað liturinn er ótrúlega fallegur. 
Ég læt safann minn alltaf í gegnum gróft sigti, þess þarf auðvitað ekki en mér finnst það betra. 
 Fallegur, bragðgóður og einfaldur safi sem bætir og kætir. 
 Ég vona að þið eigið góðan mánudag kæru vinir. 
xxx
Eva Laufey Kjaran 

Endilega deildu með vinum :)