Pönnupizza með bbq kjúkling

Ég fékk svakalega fína pönnu frá systkinum mínum í afmælisgjöf og hef ég notað hana í mjög margt. Þessi panna má fara inn í ofn og veitir mér þess vegna þann möguleika að gera pönnupizzur sem eru að mínu mati mikið betri en venjulegar pizzur. Mig langar að deila uppskrift að ómótstæðilegri pizzu með bbq kjúkling, klettasalati og nýrifnum parmesan. Hljómar það ekki vel? Fullkomin helgarpizza.
Pizzabotn
240 ml volgt vatn (mikilvægt að vatnið sé volgt)
2 ½ tsk þurrger
1 msk hunang
400 – 450 g brauðhveiti frá Kornax (í bláa pakkanum)
1 tsk salt
2 msk olía
Aðferð:
 1. Blandið volgu vatni, geri og hunangi saman í skál.
 2. Leggið viskastykki yfir skálina og leyfið gerinu að leysast upp í rólegheitum, eða í 7-10 mínútur. Um leið og það byrjar að freyða í skálinni er gerblandan tilbúin.
 3. Hellið gerblöndunni í hrærivélaskál og bætið öllum hráefnum saman við, það er góð regla að bæta hveitinu smám saman við.  Það gæti þurft minna en meira af hveitinu.
 4. Látið hnoðast í vélinni í 6 – 10 mínútur eða þar til deigið er orðið í laginu eins og kúla, einnig á það ekki að vera klístrað.
 5. Setjið viskastykki yfir hrærivélaskálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund eða þar til þar hefur tvöfaldast að stærð.
 6. Fletjið deigið út, þetta deig dugar í tvær pizzur.
 7. Hitið smávegis af olíu á pönnu, passið að pannan sé mjög heit þegar þið setjið deigið á pönnuna.
 8. Steikið pizzabotninn á pönnunni í nokkrar mínútur eða þar til botninn er orðinn stökkur, bætið þá kjúklingnum ofan á og sáldrið ferskum mozzarella osti yfir.
 9. Bakið í ofni við 200°C í 5 – 7 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.

BBQ kjúklingur

Ólífuolía
300 g kjúklingakjöt ofan á eina pizzu
1 meðalstór rauðlaukur
BBQ sósa að eigin vali
salt og nýmalaður pipar

Aðferð:

 1. Hitið ólíuolíu á pönnu og steikið kjúklinginn, kryddið til með salti og pipar.
 2. Skerið rauðlauk og bætið honum út á pönnuna.
 3. Bætið bbq sósunni í lokin og leyfið þessu á malla í 3 – 4 mínútur.

 

 

 

 

Berið pizzuna fram með klettasalati, kirsuberjatómötum og nýrifnum parmsan.
Njótið vel og góða helgi.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *