Fallegir og ljúffengir bitar í veisluna

 

Í sumar útskrifaðist Haddi frá Háskólanum í Reykjavík og
héldum við smá boð hér heima. Ég ákvað að vera með smárétti, ég bauð meðal
annars upp á snittur og litlar kökur. Marengskökur og súkkulaðikökur eru
yfirleitt vinsælastar á veisluborðinu og þess vegna ákvað ég að bjóða upp á
litlar Pavlovur og franska súkkulaðiköku með ljúffengu kremi. Ég var mjög ánægð
með útkomuna og skreytti kökurnar með ferskum berjum og blómum, það kom
ákaflega vel út og var mikið fyrir augað. Þegar ég held boð eða á von á mörgum í
mat þá finnst mér best að velja rétti sem ég get undirbúið með smá fyrirvara,
ég gat bakað frönsku súkkulaðikökuna fyrr í vikunni og setti hana inn í frysti.
Bakaði marengsinn kvöldinu áður og það eina sem ég átti eftir að gera var að
skreyta kökurnar og það tekur ekki langa stund. Ég vona að þetta veiti ykkur
innblástur fyrir næsta boð eða næstu veislu… já eða bara næst þegar ykkur
langar í góðan bita.
Litlar Pavlovur með sítrónubúðing og rjóma
 • 6 Brúnegg (aðskilinn)
 • 300 g sykur
 • 1 ½ tsk mataredik
 • 1 tsk vanilla extract eða dropar
 • Salt á hnífsoddi

1. Þeytið eggjahvítur með salti, bætið sykri saman við í þremur skömmtum

og þeytið vel á milli.
2. Bætið ediki og vanilludropum saman við þegar
marensinn er orðinn stífur.
3. Skiptið deiginu niður í litlar kökur á pappírsklædda ofnplötu.
4. Bakið marensinn við 100°C í 90 mín. Slökkvið á ofninum, opnið hurðina og látið marensinn kólna. Ef þið hafið tíma þá er gott að gera þetta kvöldinu áður en þið ætlið að nota kökurnar og leyfa þeim að kólna í ofninum yfir nóttina.
 • 200 ml rjómi
 • Vanillusykur
 • Sítrónubúðingur (Lemon curd)

 

*Geymið gjarnan eggjarauðurnar og notið þær í bakstur eða þá til að búa til sítrónubúðing (Lemon curd). Ég keypti að vísu tilbúinn sítrónubúðing í Hagkaup frá merkinu Stonewall Kitchen.
Setjið eina matskeið eða fleiri, fer eftir smekk ofan á marengskökurnar. Þeytið rjóma og setjið væna skeið af rjóma yfir sítrónubúðinginn. Skreytið kökurnar gjarnan með ferskum berjum, blómum og sigtið í lokin flórsykri yfir.

 

Frönsk súkkulaðikaka
Botn:
 • 200 g sykur
 • 4 Brúnegg
 • 200 g suðusúkkulaði
 • 200 g smjör
 • 1 dl Kornax hveiti

 

Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C (blástur).
2. Þeytið sykur og egg saman þar til blandan verður létt og ljós.
3. Bræðið saman smjör og súkkulaði við vægan hita. Blandið hveitinu saman við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut.
4. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin.
5. Smyrjið bökunarform, ég notaði að þessu sinni ferkantað form vegna þess að ég ætlaði að skera kökuna niður í litla bita. Þið getið auðvitað notað hringlaga en það fer bara eftir því hvernig þið ætlið að bera kökuna fram.
6. Bakið kökuna við 180°C í 30 mínútur. Kælið hana mjög vel áður en þið setjið kremið á hana.
Súkkulaðikrem 
 • 150 g suðusúkkulaði eða annað gott súkkulaði
 • 70 g smjör
 • 2 msk síróp

 

Aðferð:

 

1. Brjótið súkkulaðið og bræðið í smjörinu við vægan hita, ekki fara frá pottinum. Það er mjög auðvelt að brenna þessa góðu sósu.
2. Hrærið vel í sósunni og bætið sírópinu saman við í lokin.
3. Hellið sósunni yfir kökuna. Þessi sósa er ómótstæðilega góð og það er tilvalið að bera hana fram með fleiri kökum eða ísréttum. Skreytið kökuna gjarnan með ferskum berjum, það gerir kökuna enn betri.

 

Þetta var stórgóður dagur með fjölskyldu og vinum.
Mig langar að benda ykkur á Snapchattið mitt ef þið viljið fylgjast með mér þar – en ég hendi inn misgáfulegum innslögum og þið getið fylgst með þáttargerðinni og fl. Ég heiti einfaldlega evalaufeykjaran á Snapchat.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefnið sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

 

Endilega deildu með vinum :)

5 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *