OFURNACHOS UM VERSLÓ

Einn besti og sennilega einn vinsælasti partíréttur fyrr og síðar, ofnbakað nachos með allskyns gúmmilaði. Ég setti þessa uppskrift á Instastory hjá mér í gærkvöldi og ég fékk vægast sagt tryllt viðbrögð og ég hreinlega varð að drífa í því að setja inn uppskriftina. Þið getið enn séð aðferðina á Instastory og hún er lygilega einföld – alveg eins og við viljum hafa það.

evalaufeykjaran á Instagram

OFURNACHOS MEÐ KJÚKLING OG NÓG AF OSTI

*Fyrir 3 – 4 

 • 1 poki tortillaflögur með salti
 • 1 kjúklingabringa, forelduð
 • 120 g cheddar ostur
 • Tómatasalsa
 • Lárperumauk
 • Sýrður rjómi
 • 1 rautt chili
 • Handfylli kóríander
 • 1 stilkur vorlaukur
 • 1 límóna

Aðferð

 1. Útbúið tómatasalsa og lárperumauk samkvæmt uppskriftum hér að neðan.
 2. Rífið niður cheddar ostinn og kjúklingabringuna (Ég nota yfirleitt sous-vide kjúklingabringur sem fást tilbúnar í flestum matvöruverslunum. Ekki auglýsing! Einungis vinsamleg ábending)
 3. Stillið ofninn á grillstillingu.
 4. Setjið tortillaflögurnar í smelluform með lausum botni. (Athugið, þið getið líka notað eldfast mót)
 5. Sáldrið ostinum og kjúklingnum yfir, hrærið aðeins í þessu þannig að hráefnin blandist vel saman.
 6. Bakið í nokkrar mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og tortilla flögurnar gullinbrúnar.
 7. Setjið formið á disk eða platta, losið um formið og dreifið örlítið úr snakkinu.
 8. Setjið tómatasalsa, lárperumauk og sýrðan rjóma yfir á nokkrum stöðum.
 9. Saxið niður kóríander, vorlauk og chili og skreytið að vild.
 10. Berið nachosfjallið fram með límónubátum og njótið strax!

TÓMATASALSA

 • 4 tómatar
 • ½ laukur
 • Handfylli kóríander
 • 1 msk ólífuolía
 • Safinn úr hálfri límónu
 • Salt

Aðferð:

 1. Skerið tómata, lauk og kóríander afar smátt og setjið í skál.
 2. Hellið ólífuolíu yfir, kreistið safann úr hálfri límónu yfir og kryddið með salti.
 3. Hrærið vel saman og geymið í kæli í nokkrar mínútur.

LÁRPERUMAUK

 • 4 litlar lárperur eða 2 stórar
 • ¼ rautt chili
 • 2 msk smátt saxað kóríander
 • Safinn úr hálfri límónu
 • 1 msk ólífuolía
 • Salt

Aðferð:

 1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota.
 2. Berið fram með nachosfjallinu.

 

Njótið vel og skemmtið ykkur vel um helgina.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *