Ofnbökuð ýsa í mangókarrísósu.

Þegar ég var yngri þá var alltaf fiskur í matinn heima hjá mér á mánudögum og ég reyni að halda í þá hefð hér heima hjá mér.  Það má með sanni segja að ég sé að taka upp þær venjur sem mamma var með heima hjá okkur, ég man nú samt eftir því að ég var ekkert agalega ánægð með mánudagsfiskinn þegar  ég var yngri. Þá hét ég því auðvitað að þegar ég yrði stór þá skyldi nú vera pítsupartí á hverju kvöldi og hananú! En allt kom fyrir ekki og nú finnst mér mánudagar ómögulegir ef ég fæ ekki fisk í kvöldmatinn. 
 Að mínu mati er soðin ýsa stöppuð saman við kartöflur og smjör alltaf dásamlega gott en það er líka mjög gaman að prufa sig áfram með mánudagsfiskinn. Þessi fiskréttur sem ég ætla að deila með ykkur í dag er hollur, einfaldur hversdagsréttur sem er að mínu mati virkilega ljúffengur. Í sósunni er bæði karrí og mangó chutney sem eru bæði í miklu uppáhaldi hjá mér við matargerðina. 
Ég vona að þið njótið vel. 
Ofnbökuð ýsa í mangókarrísósu 
Uppskrift miðast við  þrjá til  fjóra manns. 
                                                                            
600 g ýsa (má líka nota annan fisk)
1 msk ólífuolía
2 meðalstórar paprikur (rauð og gul)smátt skornar
2 gulrætur, smátt skornar
2 msk blaðlaukur, smátt skorinn
1 peli rjómi 
1 1/2 msk mangó chutney
1 1/2 – 2 tsk karrí
1 msk fersk steinselja, smátt söxuð
1 tsk ferskt timjan, smátt saxað 
rifinn ostur, magn eftir smekk
salt og pipar 
Aðferð:
1. Skerið grænmetið niður. Hitið olíu við vægan hita og steikið grænmetið í svolitla stund.
2. Hellið rjómanum saman við og bætið fersku kryddjurtunum út á pönnuna, leyfið þessu að malla í smá stund við vægan hita. 
 4. Bætið mangó chutney og karrí saman við og hrærið vel í. Kryddið til með salti og pipar, mjög mikilvægt að smakka sósuna á þessum tímapunkti. 

Það getur vel verið að þið viljið hafa sósuna sterkari eða mildari og þá er nauðsyn að dassa sig til. Ef ykkur finnst sósan of þykk þá getið þið bætt smávegis af vatni saman við. 

5. Skolið fiskinn vel og leggið hann í eldfast mót. Hellið sósunni yfir og stráið að lokum rifnum ost yfir réttinn. 
6. Setjið fiskréttinn inn í ofn við 190°C í 30 – 35 mínútur. 
 Ilmurinn af réttinum var dásamlegur. Mangó chutney og karrí eru að mínu mati ótrúlega góð saman og ég verð aldrei fyrir vonbrigðum ef ég blanda þeim saman. 
Berið fiskréttinn fram með fersku salati og hrísgrjónum.
Litirnir eru svo afskaplega fallegir og grænmetið fær svo sannarlega að njóta sín í réttinum.
 Ýsa er í eftirlæti hjá mér en það má auðvitað nota hvaða fisk sem er. 

Þessi réttur er svo ótrúlega einfaldur og er sérstaklega ljúffengur. Hann er mjög fljótlegur sem er mikill kostur að mínu mati þessa dagana þegar lítill tími gefst við matargerð. 
 Mánudagsfiskurinn í dásamlegum búning. 
Ég mæli svo sannarlega með að þið prufið þessa uppskrift kæru vinir. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

5 comments

  • Takk fyrir þetta!
    Ég var einmitt að vandræðast með hvað ég ætti að gera við fiskinn sem ég ætla að hafa í kvöld (reyndar þorskhnakkar) og ég á allt í þetta nema fersku kryddjurtirnar. Er ekki í lagi að sleppa þeim eða á ég að setja e-ð annað í staðinn?

    • Sæl Sigga. Mér finnst fersku kryddjurtirnar gefa mjög gott bragð en það er í lagi að sleppa þeim. Ég mæli þá með að nota meira af karrí eða mangó chutney. Smakkaðu þig bara til 🙂

      Bestu kveðjur

      Eva Laufey

  • Ég gerði þennan í gær, átti ekki ferskt timian en notaði þurrkað og setti þá meira af hinu, þetta var ótrúlega gott 🙂 Gerði einnig fiskrétt mömmu þinnar um daginn og hann var æði! Frábært að fá svona fiski uppskriftir því maður er oft svo hugmyndasnauður 🙂
    takk fyrir frábært blogg, hef virkielga gaman af því!

    bestu kveðjur
    Hófí

  • Mjög hrifin af þessum, er búin að gera hann nánast í hverju mánuði síðan ég prufaði 🙂 ég er reyndar búin að skipta rjómanum út fyrir cocos cream og paprikuni fyrir butternut grasker 🙂 mjög gaman að leika sér með þessa uppskrift, takk fyrir hana 🙂

Leave a Reply to heiho - Cancel Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *