Nautalund og besta kartöflugratínið.

Nautalund 

Nautalund ca. 200 – 250 g á mann
smjör 
salt og pipar

Aðferð:

Hitið smjör á pönnu við vægan hita, sáldrið smá salti á pönnuna og setjið steikurnar á pönnuna og steikið í 2 – 3 mínútur á hvorri hlið. Saltið og piprið duglega á meðan. 

Hitið ofninn í 200°C. Setjið steikurnar á eldfast mót og inn í ofn í 12 – 14 mínútur. Þá er steikin medium/rare. Persónulega finnst mér hún best þannig. 

Meðlætið var mjög einfalt enda er steikin svo ótrúlega góð. Góð sósa, í raun hentar hvaða sósa sem er með steikinni. Ferskt salat, gratínerað spergilkál (spergilkál soðið í 7 mínútur og síðan sett í eldfast mót og rifinn ostur settur yfir, inn í ofn í 5 – 7 mínútur) Kartöflugratínið hennar mömmu er það besta sem ég fæ með steikum og ég verð að deila uppskriftinni með ykkur. 

 Kartöflugratínið hennar mömmu
1 kg. Kartöflur
1 Peli rjómi
1 dós niðursoðnir sveppir (líka hægt að smjörsteikja ferska sveppi, mér finnst þó sveppir í dós ljómandi góðir) Við notum sveppina og vökvann.
1 Kjúklingateningur
2 – 3 msk. Smjör
1 tsk. Salt
1 tsk. Pipar
1 – 2 msk. kjúklingakrydd
Kartöflurnar eru skornar smátt og öllu er blandað vel saman í stóru eldföstu móti. 
Inn í ofn við 180°C í 50 – 55 mínútur. 

 Með matnum drukkum við Montes Cabernet Sauvignon Carmenere. Kirsuberjarautt, fremur þurrt en afskaplega bragðmikið og gott. Hentaði mjög vel með nautalundinni.
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)