Nautalund með ofnbökuðum tómötum og Mozzarella di bufala

Undanfarnar vikur hefur eldamennskan verið afar einföld á þessu heimili, ég er farin að nota færri hráefni og betri vil ég meina. Ég elska líka allt sem er einfalt og fljótlegt… þess vegna á þessi eldamennska vel við 🙂 Ég fór mjög svöng inn í Hagkaup í síðustu viku og það er alltaf frábært að fara svangur í matarbúð, þið þekkið það! Eins og þið vitið að þá hef ég verið í samstarfi við Hagkaup í nokkur ár og ég verð eiginlega að deila því með ykkur hvað nýja búðin þeirra í Kringlunni er geggjuð. Ég fór semsagt mjög svöng inn í hana og greip allt sem mig langaði í, girnilega tómata, ferskar kryddjurtir, góðan ost og girnilegt nautakjöt. Og jú, ég kemst aldrei hjá því að fara í Lindor nammibarinn haha. Þegar heim var komið eldaði ég nautalund með piparostasósu handa Hadda og Ingibjörgu Rósu en mig langaði meira í tómata- og ostasalat með kjötinu sem ég mæli með að þið prófið. Kjötið bráðnaði í munninum og tómatarnir og mozzarella di bufala eru hreint út sagt ómótstæðileg tvenna…

Nautalund með æðislegu tómatasalati og Mozzarella di bufala

Fyrir 2 

  • 500 g nautalund
  • Ólífuolía
  • smá smjör
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 220°C.
  2. Kryddið lundina með salti og pipar.
  3. Hitið olíu á pönnu og steikið lundina á öllum hliðum þannig að hún brúnist vel, bætið smjöri út á pönnuna í lokin og hellið duglega yfir lundina.
  4. Setjið lundina í eldfast mót og eldið við 220°c Í 12 mínútur (það er okkar tími – við viljum hafa kjötið medium/rare)
  5. Leyfið kjötinu að hvíla í lágmark fimm mínútur áður en þið skerið það niður og berið fram.

Ofnbakað caprese salat

  • 1 kúla Mozzarella di bufala
  • 10 – 15 kirsuberjatómatar
  • Fersk basilíka
  • Nóg af ólífuolíu
  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Skerið tómata í tvennt, leggið á pappírsklædda ofnplötu og sáldrið ólífuolíu yfir. Kryddið tómatana til með salti og pipar.
  3. Bakið við 180°C þar til þeir eru orðnir mjúkir og krumpaðir (10-15 mínútur)
  4. Rífið ostinn niður á disk, best er að bera ostinn fram við stofuhita.
  5. Setjið basilíku í mortél ásamt ólífuolíu og maukið saman þar til þið eruð með fína sósu. Þið stjórnið þykktinni með ólífuolíunni.
  6. Þegar tómatarnir eru tilbúnir setjið þið þá yfir ostinn, þeir eru svo heitir að osturinn bráðnar aðeins sem gerir hann enn betri.
  7. Hellið síðan basilíkusósunni yfir og skreytið diskinn í lokin með basilíku.

Ég sleppti því alveg að fá mér sósu og lét salatið og vel af ólífuolíu duga, það er tryllingslega gott. Þið verðið hreinlega að prófa.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *