Kjúklingur í hvítvínschili sósu.

Kjúklingur í hvítvínschilisósu. 
Þessi réttur er sérlega góður og ótrúlega auðveldur. Uppskrift frá mömmu minni, hún er náttúrlega snillingur í eldhúsinu. 
Uppskrift (Fyrir tvo )
1 x Lítill laukur 
2 x Tómatar
1 – 2 Hvítlauksgeirar
1 x Rautt chili (Ég tók steinana í burtu þar sem ég vildi ekki hafa þetta of sterkt)
Kjúklingur (4 bitar ) 
2 – 3 msk. Chilitómatsósa
1/2 Kjúklingateningur

300 ml. Vatn 
150 ml. Hvítvín
350 g. spagettí
 Byrjum á því að skera laukinn, tómatana og chiliið.
 Ég átti ekki hvítlauk en ég átti þessa guðdómlegu olíu með hvítlauksbragði. 
 Steikjum laukana og tómatana upp úr olíunni, pössum okkur á því að þetta verði ekki brúnt. 
 Bætum chili-tómatsósunni saman við og blöndum þessu vel saman. 
Setjum svo kjúklingabitana saman við, brúnum þá léttilega.
Piprum og söltum!
 Bætum síðan 200 ml. Af vatni saman við og 100 ml. Af hvítvíni sem og 1/2 kjúklingatening.

Leyfum þessu að malla við vægan hita í 30 mínútur. Ilmurinn verður orðinn dásamlegur eftir 30 mínútur og þá hrærum við örlítið í þessu og bætum restinni af vatninu og hvítvíninu við og leyfum þessu að malla í um það bil 10 mínútur til viðbótar. 
Þá er að huga að því að sjóða pasta. Persónulega finnst mér skemmtilegast að bera réttinn fram ásamt spagettí en ég átti því miður ekki spagettí við þetta tilefni svo ég tók þá tegund sem ég átti inn í skáp.
Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Ég læt alltaf smá olíu í pottinn og smá salt saman við.

 Pasta, klettasalat, kjúklingur og mikil sósa. Rúsínan í pylsuendanum er svo að strá vel af parmesan ost yfir.
 Í réttinn notaði ég Baron De Ley hvítvín. Það hentaði mjög vel með þessum kjúklingarétt, vínið er fremur þurrt og einstaklega bragðgott. 
Jummí. Þetta var svakalega gott!
Bon appetit!
Mæli hiklaust með að þið prufið þennan rétt. Einfaldur og ljúffengur. 
Njótið helgarinnar því það ætla ég svo sannarlega að gera. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)