Kanilsnúðar með ljúffengri eplafyllingu

 Það er nú fátt betra en að vakna í sveitinni á ljúfum laugardagsmorgni, vitandi það að hægt sé að kúra örlítið lengur því það er jú helgi og þá er allt kúr veraldar leyfilegt. Mig langaði eins og svo oft áður í eitthvað gott í morgunmat, helgargott ef svo má að orði komast. Á helgum finnst mér ástæða til þess að gera örlítið betur við sig en aðra daga. Ég er sólgin í kanilsnúða og ég er sólgin í eplakökur. Ég gat ekki valið á milli svo ég ákvað að prófa að baka kanilsnúða með eplafyllingu. Ég dreif mig út í kaupfélag og keypti það sem mig vantaði fyrir baksturinn, kom heim og fór aftur í náttfötin og hóf baksturinn. Kanilsnúðarnir heppnuðust vel að mínu mati, ég lét þá vera svolítið stóra svo fyllingin myndi nú njóta sín. Þeir eru kannski pínkulítið grófir að sjá í útliti en það gerir þá enn heimilislegri, gómsætir og einfaldir snúðar sem eiga svo sannarlega vel við á helgum. 
 Mjúkir kanilsnúðar með eplafyllingu 
Deig:
500 g hveiti
100 g sykur
1 tsk vanillusykur
2, 5 tsk þurrger
250 ml mjólk
70 ml smjör, brætt
2 egg 
1 tsk salt
Fylling:
2 meðalstór græn epli
50 g sykur
100 g smjör
2 – 3 msk kanill. 
Aðferð: 
Öllum þurrefnum í deigið er blandað vel saman, bætið vökvanum saman og hnoðið vel. Breiðið röku viskustykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 – 40 mínútur. Á meðan að við bíðum eftir deiginu þá getum við útbúið fyllinguna. Hitið smjörið í potti, afhýðið eplin og skerið þau í litla bita, bætið þeim út í pottinn ásamt sykrinum og kanil. Leyfið blöndunni að malla við vægan hita í nokkrar mínútur eða þar til eplin eru orðin silkimjúk, hrærið vel í á meðan. 
Þegar deigið hefur hefað sig er það flatt út og smurt með fyllingunni. Deiginu er svo rúllað út og skorið í hæfilega marga snúða. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, raðið snúðunum á pappírinn og leggið viskustykki yfir þá, rakt viskustykki. Leyfið þeim að standa í 30 mínútur áður en þeir fara inn í ofn. Bakið við 170°C í 12 – 15 mínútur. 
Ég bræddi smá súkkulaði yfir vatnsbaði og dreifði yfir, mæli með að þið gerið slíkt hið sama. Súkkulaði passar einstaklega vel saman við þessa snúða. 
Ég sit södd og sæl hér í stofunni í sveitinni, eftir augnablik þá ætla ég að koma mér út og fara í hressandi göngutúr í rigningunni. Planið var að hlaupa hálft maraþon í dag en þar sem ég er ekki alveg nógu hress eftir blessuðu veikindin þá ákvað ég að sleppa því, það kemur annað hlaup eftir þetta. Ég dáist af öllu duglega fólkinu sem hljóp í dag, húrra fyrir ykkur. 
Ég vona að þið hafið það sem allra best um helgina.
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *