Hollar smábitakökur

Smábitakökur í hollari kantinum 

Ég geri mér stundum smábitakökur í hollari kantinum, sérstaklega þegar skólinn er að byrja. Agalega gott að grípa þessar kökur með sér í morgunsárið. Þær eru líka ferlega sniðugar sem millimál. Ég geri þær voða sjaldan eins, nota bara það sem ég á til heima hverju sinni. Þessi uppskrift heppnaðist ágætlega og ég er ánægð með kökurnar. Prófaði í kaffitímanum eina köku með osti og það var ansi ljúffengt, svo það má með sanni segja að þessar kökur eiga alltaf vel við 🙂 
En hér kemur uppskriftin, ca 12 kökur. 
2 bananar, stappaðir
1 bolli döðlur, skornar í litla bita og lagðar í bleyti í 1 – 2 mín.
2 bollar haframjöl
1 msk gróft hnetusmjör
1 1/2 msk hörfræ
Smá sjávarsalt og kanil
1 tsk olía
Þessu er öllu blandað vel saman í skál, látið blönduna standa í um það bil 10 mínútur og mótið síðan litlar kúlur, setjið kúlurnar á bökunarpappír í ofnskúffu. Inn í ofn við 180°C í 18 – 20 mínútur. Þá ættu kökurnar að vera tilbúnar. 
Stundum læt ég gróft kókosmjöl (1/2 bolla)og kókosólíu (1 msk), sleppi þá hnetusmjörinu og saltinu. Svo er nú hægt að bæta söxuðu dökku súkkulaði saman við, það er ansi ljúffengt. 
Ég mæli allaveganna með því að þið prufið. 

Ég vona að þið séuð búin að eiga góðan mánudag 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *