Föstudagsmorgun

Ég var að koma heim úr næturflugi en ég þarf alltaf smá tíma til þess að ná mér niður áður en ég fer að sofa. Ég hellti mér upp á smá morgunkaffi (eiginlega bara til þess að finna kaffilyktina) er með ný tímarit fyrir framan mig sem ég ætla að glugga í, dagbókin góða er auðvitað líka með því næstu dagar verða sérdeilis skemmtilegir og mikið að gera, svo það er gott að hafa skipulagið ágætt. Annars þá finnst mér eitthvað svo notalegt við að sitja hér inni, ein í kyrrðinni og úti er hundleiðinlegt veður, svei mér þá ef það kallar ekki á góðan súkkulaðibolla. Nú er ég komin með verkefni þegar ég vakna á eftir ; laga heitt súkkulaði og þeyta rjóma. 😉 
Víst ég fór að tala um heitt súkkulaði við ykkur þá verð ég að minna á gamla færslu, þar deildi ég uppskrift að uppáhalds heita súkkulaðinu mínu. Uppskriftin er hér. Það er útlit fyrir að veðurspáin ætli ekki að vinna með okkur þessa helgina (þá sjaldan) svo það er tilvalið að fá sér heitt súkkulaði, kveikja á kertum og hafa það svolítið huggulegt. 

Nú ætla ég að snúa mér að þessum tímaritum sem bíða mín.. og fara að sofa. Ég vona að þið eigið góðan föstudag og góða helgi framundan. Föstudagar eru svo skemmtilegir, helgin að ganga í garð og þá er tími til þess að gera skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki. Við eigum bara að einbeita okkur að skemmtilegheitum, annað væri tóm vitleysa. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *