Fiskibollurnar hennar ömmu með asísku twisti

 Fiskibollurnar hennar ömmu Stínu eru í miklu uppáhaldi og  ég elskaði að koma í heimsókn til ömmu og gæða mér á bollunum ásamt brúnu sósunni sem borin var fram með bollunum. Nú þegar ég hugsa um þessar heimsóknir finn ég ósjálfrátt lyktina af matnum… og ylja mér við ljúfar minningar. Amma er best og allt sem hún eldaði og bakaði var á einhvern hátt miklu  betriaen hjá öðrum, ég get ekki útskýrt það með orðum beint en ég hugsa að fleiri tengi við þessa tilfinningu. Ég nota uppskriftirnar hennar ömmu mjög mikið og mér finnst  gaman að þróa þær áfram. Uppskriftin hér að neðan er í grunninn frá ömmu en ég setti smá asískan blæ á bollurnar sem að mínu mati kom vel út og ferska salatið var fullkomin viðbót.
Einfalt, ferskt og fljótlegt á mánudegi.

Fiskibollurnar hennar ömmu

14 – 16 bollur
 • 800 fiskhakk
 • 1 meðalstór laukur
 • 1/2 rautt chilialdin
 • handfylli kóríander
 • 1 egg
 • 2 msk hveiti
 • salt og pipar
 • Ólífuolía
 • Smjör
Aðferð:
 1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og maukið þar til blandan verður silkimjúk. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél þá er fínsaxið þið laukinn, chilialdin og kóríander og blandið öllu vel saman.
 2. Hitið ólífuolíu og smjör á pönnu, steikið bollurnar á öllum hliðum í ca. mínútu á hlið. Setjið bollurnar í eldfast mót og inn í ofn í 15 – 20 mínútur við 180°C. Á meðan bollurnar eru í ofninum útbúið þið einfalt meðlæti t.d. ferskt salat, hrísgrjón og létta sósu.

Létt jógúrtsósa með Wasabi

 • 1 dós grískt jógúrt
 • 1 hvítlauksrif
 • safi úr hálfri límónu
 • Wasabi paste, magn eftir smekk
 • Salt og pipar

Aðferð:

 1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Smakkið ykkur til og kryddið með salti og pipar. Gott að geyma sósuna í kæli áður en þið berið fram.

Hrásalat

 • Rauðkál
 • Kínakál
 • Safinn úr hálfri límónu
 • 1 gulrót
 • 1/2 rautt chilialdin
 • Salt og pipar
 • Handfylli kóríander
Aðferð:
 1. Skerið grænmetið í þunnar sneiðar og blandið vel saman í skál, kreistið safa úr hálfri límónu yfir og kryddið til með salti, pipar og ferskum kóríander.

 

Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin sem voru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

 

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *