Epladraumur Evu

Ég er búin að vera með mína tegund af eplaköku á heilanum lengi vel og ákvað að prufa að baka þessa „hugmynd“ Hún heppnaðist ótrúlega vel og  ég er sérstaklega ánægð með kökuna. 
Epladraumur Evu. 

Uppskrift. 

2 x Græn epli
ca 300 gr. Sykur (Bæði í botn og eplamauk)
250 gr. Hveiti
4. Egg
ca. 300 gr. Smjör (Bæði í botn og eplamauk)
1 ½ tsk. Vanilla Extract (Eða vanilludropar)
1 x Sítróna
1 ½ tsk. Lyftiduft
4  tsk. Kanill 


 Byrjum á því að skera eplin í litla bita. 

 Við ætlum að nota bæði safann og börkinn af sítrónunni. 
 Tvö epli, 2 msk. Sítrónusafi og börkur af einni sítrónu.
 Setjum ca. 30 gr. Smjör í pott og setjum eplin saman við, hrærum vel í og bætum síðan sítrónusafanum og börknum saman við. Stráum 5 msk. Af sykri yfir og 4 tsk. Af kanill. 
Leyfum þessu að malla við vægan hita í 3 mínútur, hrærum þó í á meðan. 
Bætum svo 40 ml. Vatni saman við og leyfum þessu að malla áfram í 2 mín. Svo er nauðsyn að smakka til, ef þetta er enn of súrt þá endilega að bæta meiri sykri eða kanil saman við. 

 Svona lítur þetta út þegar að þetta er tilbúið, leggjum þetta til hliðar á meðan að við lögum botninn. 
 250 gr. Hveiti, 250 gr. Sykur, 250 gr. Smjör, 4 egg,  1 1/2 tsk. Vanillu Extract og 1 1/2 Lyftiduft. 
Byrjum á því að hræra sykur og smjör saman í tvær mín, bætum síðan eggjum saman við og hrærum í smá stund. Svo fer restin ofan í og þessu blandað vel saman í rúmar þrjár mín. 
 Epla crumble. 

50 gr. Hveiti
½ tsk. Kanill
35 gr. Smjör
25 gr. Sykur

Aðferðin er sú að við sigtum saman hveiti og kanil. Skerum smjörið í litla bita, blöndum sykrinum og smjörinu saman við hveitiblönduna og blöndum þessu vel saman með höndunum. Þar til þetta verður orðið ansi fíngert.

 Þá setjum við fyrsta grunninn, skiptum deiginu í tvö lög.
 Eplasítrónumauk á milli.
 Annað lag komið á. 
 Epla Crumble komið á og þá má kakan fara inn í ofn við 180°C (blástur )í 40 – 45  mínútur. (Ofnar eru auðvitað misjafnir svo það er gott að stinga pinnaí kökuna til þess að athuga hvort hún sé tilbúin, ef deigið festist ekki á pinnanum þá er kakan tilbúin)
 Tilbúin og falleg.
 Karamellusósan. 
Hentar í raun vel með hvaða köku sem er, sérstaklega epla og súkkulaði. 
En það eina sem þarf að gera er að setja 1 dl. Af rjóma í pott og poka af Góa kúlum og bræða saman við vægan hita, passa að hræra í á meðan. 

 Jummí. 

Ég var sérstaklega ánægð með útkomuna. 
Auðveld og ótrúlega bragðgóð. 
Best nýbökuð með ís eða rjóma. 

Mæli hiklaust með að þið prufið og vonandi finnst ykkur hún jafn góð og mér finnst hún. 

Gleðilegan sunnudag. 
xxx

Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)