Ég er í hlaup-átaki. Mig langar agalega til þess að hlaupa mér til skemmtunar, jafnvel ef vel gengur að taka þátt í maraþoni einn góðan veðurdag. Þannig ég er að safna kílómetrum á hverjum degi, þegar að ég segi hverjum degi þá meina ég á hverjum degi frá því á mánudaginn. Þannig ég er nýbyrjuð í þessu átaki.
Það er svo gott að hlaupa – með góða músík er allt hægt.
Að vísu kann ég betur að meta hlaupin þegar að þau eru búin, ekki aaalveg á meðan á þeim stendur. Stundum er ég löt – stundum ekki. En allt er gott eftir á :o)
Ég var að grúska í gömlum myndum og fann þá mynd af mér síðan 2009. Ég er kjáni og bar saman mynd frá því þá og nú. Ég ákvað að deila þeim myndum með ykkur.
Á þessum tveimur árum frá því að vera í engu formi og í það að komast í ágætt form, þá munar það svo sérdeilis miklu fyrir andlega vellíðan. Þetta er klisja, en þetta spilar svo ótrúlega mikið saman. Ef manni líður ekki vel í eigin skinni þá líður manni ekki vel.
Ég er ekki að segja að maður þurfi að vera ótrúlega mjór til þess að líða vel, það er ekki mín hugmynd um vellíðan heldur að vera í góðu formi líkamlega til þess að andlega hliðin fúnkeri vel.
Ég hef prufað misjafnar aðferðir til þess að komast í form. Hef prufað marga skyndikúra en þeir virka svo sannarlega ekki til lengri tíma litið.
Hugarfarið er það eina sem að kemur manni þangað sem maður vill. Það stjórnar öllu, það þýðir ekkert að hætta að borða nammi, brauð, hveiti o.s.frv. því einn daginn þá áttu eftir að detta í það.
Í stað þess að borða bara það sem að þú vilt, allt er náttúrlega gott í hófi og hreyfa sig reglulega. Fjölbreytt matarræði skiptir miklu máli.
Ef maður fer t.d. á hverjum degi í bakarí og kaupir sér snúð þá verður ekki eins gaman að fara í bakarí og kaupa sér snúð. (Hljómar undarlega en ég vona að þið skiljið mig.)
Ég veit að ég var ekkert skelfileg árið 2009 og þetta var ekkert stórmál. En fyrir andlegu hliðina á mér var þetta stórmál, skyndikúrar gerðu illt verr.
Sjálfsöryggið tapast og óánægja með sjálfan sig er ósköp erfitt að takast á við.
Breytt hugarfar er það sem dugir.
Ég er sátt og sæl með mig í dag. Ég borða það sem ég vil og ég hreyfi mig daglega, mér líður vel í eigin skinni.
Það er það mikilvægasta – því ef við fúnkerum ekki sem skyldi þá fúnkerar lítið í kringum okkur.
xxx
Eva Laufey Kjaran