Eggjamúffur með beikoni og papriku.

Eins og Instagram fylgjendur mínir hafa tekið eftir þá vorum við fjölskyldan í vikufríi á Spáni. Við komum heim í nótt en dóttir mín svaf allt flugið og var ekkert að stressa sig á því að sofa út þó við hefðum komið heim um fimmleytið. en það er nú ekkert sem góður kaffibolli getur ekki bjargað. Allavega, ég átti eftir að deila uppskrift að eggjamúffum sem ég gerði um daginn og það freistaði mun meira að setja uppskriftina strax inn en að byrja að ganga frá tveimur risa ferðatöskum sem bíða mín. Það er aldrei skemmtilegt að ganga frá fríinu en mikil ósköp var dásamlegt að taka stutt og gott frí, ég mun áreiðanlega deila myndum með ykkur á næstu dögum.
Egg eru í miklu uppáhaldi hjá mér og gegna þau lykilhlutverk í mörgum réttum sem mér finnst góðir, hvort sem það er matargerð eða í bakstri. Um daginn bakaði ég þessar einföldu og rosalega góðu eggjamúffur, það er tilvalið að bera þær fram í morgunmat eða á bröns hlaðborðinu. Það er heldur ekki vitlaust að taka nokkrar með í ferðalagið. Eggin gegna aðalhlutverkum í uppskriftinni en þið getið notað hvaða grænmeti og kjötmeti sem þið viljið, notið það sem þið eigið í ísskápnum.

 

Eggjamúffur með beikoni og papriku.

  • Um það bil 12 múffur.

10 Brúnegg

1 dós sýrður rjómi
1 rauð paprika
1/4 púrrulaukur
100 g beikon
salt og nýmalaður pipar
rifinn ostur
Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Þeytið eggin saman og bætið sýrða rjómanum saman við. Kryddið til með salti og pipar.
  3. Skerið paprikuna, vorlaukinn og beikonið smátt niður og bætið út í eggjablönduna.
  4. Blandið vel saman og bætið gjarnan smá osti út í.
  5. Skiptið deiginu niður í bollakökuform, það hefur reynst mér best að smyrja bollakökuformið mitt með smá smjöri og hveiti. Annars festist eggjablandan við formið, en það tekur þá bara smá stund að ná henni úr með sápu og heitu vatni.
  6. Dreifið rifnum osti yfir og bakið við 180°C í miðjum ofni í 20 – 25 mínútur eða þegar eggjamúffurnar eru gullinbrúnar og eggjamassinn stífur.
  7. Berið strax fram, ég setti þær í bollakökuform áður en ég bar þar fram en það var bara upp á útlitið að gera hefur ekkert með bragðið að segja svo þið getið alveg sleppt því.
Njótið vel kæru lesendur.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *