Skinkuhorn með Camenbert og papriku.

 

Það er virkilega notalegt að vera í sumarfríi með dömunni minni og byrja daginn á bakstri, við Ingibjörg Rósa bökuðum þessi skinkuhorn um daginn og þau runnu ljúft niður. Ég prófaði í fyrsta sinn að nota Camenbert smurost í skinkuhornin og það kom mjög vel út, einnig skar ég niður rauða papriku og það var mjög gott. Ingibjörgu fannst voðalegt sport að fá að taka sér horn og smakka. Ég hlakka mikið til þegar hún verður aðeins eldri og verður farin að taka virkan þátt í bakstrinum. Ég var svo heppin að alast upp við kökuilm og ég ætla gera mitt allra besta svo hún fái það líka.
Ég hef bakað þessi horn mjög oft, ég breyti fyllingunni gjarnan í hvert skipti en grunnurinn er alltaf sá sami og fékk ég uppskriftina hjá Kollu vinkonu minni.

 

Skinkuhorn með Camenbert og papriku 
ca. 40 meðalstórn skinkuhorn
 • 900 g Kornax hveiti (gæti þurft meira en minna)
 • 60 g sykur
 • ½ tsk salt
 • 100 g smjör
 • 500 ml mjólk
 • 1 pakki þurrger, 12 g
Fylling
 • 1 askja Camenbert smurostur
 • 1 askja papriku smurostur
 • 1 rauð paprika
 • 250 g skinka
 • rifinn ostur
Ofan á:
 • 1 egg
 • 1 msk mjólk
 • Rifinn ostur
Aðferð:

 

 1. Hitið mjólk í potti, mjólkin á að vera volg.
 2. Vekjið gerið í mjólkinni, en það tekur um það bil fimm mínútur. Um leið og það byrjar að freyða í skálinni er gerblandan tilbúin.
 3. Bræðið smjör.
 4. Blandið öllu saman í skál og hnoðið deigið mjög vel, ég leyfi hnoðaranum á hrærivélinni minni að sjá um verkið en þá tekur það um bil bil fimm til sex mínútur. (ef ykkur finnst deigið of blautt þá bætið þið meira hveiti saman við, deigið er tilbúið þegar það festist ekki lengur við hrærivélaskálina)
 5. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að lyfta sér í rúmlega klukkustund eða þar til það hefur tvöfaldast og jafnvel þrefaldað stærð sína.
 6. Hitið ofninn í 180°C.
 7. Skiptið deiginu niður í fimm einingar (um 300 – 350 g hver eining)
 8. Fletjið út hverja einingu í hring og skerið í átta þríhyrninga.
 9. Skerið skinku og papriku og blandið saman við smurostinn í skál.
 10. Setjið fyllingu í hvern þríhyrning og dreifið smá osti yfir.
 11. Rúllið deiginu frá breiðari endanum þegar þið lokið hornunum.
 12. Pískið eitt egg og smá mjólk saman og penslið yfir hornin. Gott er að sáldra rifnum osti eða kornum yfir hornin áður en þau fara inn í ofn við 200°C í 10 – 12 mínútur eða þar til þau verða gullinbrún.

 

 Ég vona að þið njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

 

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

 

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *