Hér er uppskrift að virkilega gómsætum döðlubitum en þið þekkið eflaust flest þessa uppskrift enda er hún gífurlega vinsæl og það er ekki að ástæðulausu. Ég eeeelska þessa karamellu- og döðlubita með smá piparperlum, ég fæ ekki nóg og kann mér ekki hóf fyrir fimm aur þegar kemur að þessu kökum. Eitt sinn smakkað þú getur ekki hætt á vel við þessa ljúffengu bita.
Ég átti öll hráefnin til aldrei þessu vant í morgun og þurfti ekki einu sinni að fara út í búð eftir piparperlunum, þess vegna fannst mér miklu meira en tilvalið að skella í döðlugott og deila með ykkur að sjálfsögðu. Það eru til margar útgáfur að döðlugotti og ef þið lumið á góðu hráefni til þess að setja út í deigið þá megið þið endilega deili í athugasemdum – því fleiri útgáfur að döðlugott því betra fyrir okkur öll
Þið getið horft á aðferðina við að búa til döðlugottið á Snapchat, þið finnið mig undir evalaufeykjaran
Njótið vel!
Döðlugott með piparperlum
- 380 g döðlur, smátt saxaðar
- 250 g smjör
- 125 g púðursykur
- 80 g Rice Krispies
- 70 g piparperlur
- 150 g súkkulaði t.d. mjólkur eða suðusúkkulaði
Aðferð:
Saxið steinlausar döðlur smátt. Setjið döðlurnar, smjörið og púðursykur í pott og blandið vel saman við vægan hita. Þegar döðlurnar eru farnar að mýkjast er gott að þrýsta aðeins á þær til dæmis með kartöflustöppu svo þær verði að mauki.
Hrærið vel í blöndunni og leggið til hliðar. Setjið Rice Krispies út í ásamt smátt söxuðum piparperlum.
Dreifið úr blöndunni í pappírsklæddu formi og þrýstið blöndunni vel í formið.
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og hellið yfir döðlukökuna, setjið kökuna í kæli í 1 – 2 klst eða þar til kakan er hörð í gegn. Skerið kökuna í litla bita og berið fram.
Gott er að geyma bitana í kæli, ég læt þá inn í frysti og tek bitana út með smá fyrirvara áður en ég ber þá fram.
–
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin sem voru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.