Djúpsteikt tacos!

Djúpsteikt tacos!

Þriðjudagar eru taco dagar á okkar heimili og ég sýni frá því á Instagram, þetta er orðin virkilega skemmtileg hefð og ég er spennt alla vikuna að elda ljúffengt taco á þriðjudögum. Í síðustu viku eldaði ég eða djúpsteikti öllu heldur fisk og bar fram í tortilla vefjum, guðdómlega gott… ég hef í raun ekki hætt að hugsa um þennan rétt og hann verður á matseðlinum fljótlega aftur. Ég mæli mjöög mikið með að þið prófið.

Uppskriftin miðast við fjóra – fimm

Hráefni í þeirri röð sem ég nota þau:

Mangósalsa:

  • 1 mangó
  • 1 rauð paprika
  • Handfylli kóríander
  • 10 – 12 kirsuberjatómatar
  • Salt og pipar
  • Safi úr hálfri límónu
  • 1 msk ólífuolía

Aðferð:

  1. Skerið grænmetið mjög smátt og blandið saman í skál. Kreistið límónusafa og hellið ólífuolíu yfir, kryddið til með salti og pipar.
  2. Geymið í kæli í 20 – 30 mínútur.

Lárperumauk

  • 3 lárperur
  • 1 – 2 hvítlauksrif
  • Handfylli kóríander
  • Safi úr einni límónu
  • Salt
  • 1/2 laukur
  • 1 msk ólífuolía

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin í blandara/matvinnsluvél. Maukið þar til lárperumaukið er orðið mjög fínt, smakkið ykkur auðvitað til á meðan!

Fiskurinn/orly deigið

  • 700 g fiskur (ég nota yfirleitt þorsk eða ýsu)
  • Olía sem þolir djúpsteikingu
  • 250 ml hveiti
  • 250 ml sódavatn
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk salt og pipar
  • 1 tsk hvítlauksduft

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti, magnið er ca. aðeins meira en helmingur af pottinum (þetta er kannski agaleg mæling – ég mæli betur næst!). Aðal málið er að hafa nóg af olíu.
  2. Á meðan olían hitnar í pottinum sem tekur smá stund er orly deigið útbúið.
  3. Blandið hveiti, lyftidufti, salti, pipar, hvítlauksdufti og sódavatni saman í skál og hrærið vel þar til blandan verður silkimjúk.
  4. Skerið fiskinn í jafn stóra bita, kryddið með salti og pipar og veltið upp úr hveiti. Síðan fer fiskurinn ofan í orly deigið og því næst ofan í pottinn þar sem hann er djúpsteiktur í ca. 4 mínútur eða þar til deigið er gullinbrúnt. Það er gott að snúa honum við einu sinni til tvisvar.
  5. Þerrið fiskinn með eldhúspappír, kryddið með salti og kreistið jafnvel smá sítrónusafa yfir.
  6. Berið fram í tortillavefju með lárperumauki, mangósalsa og ferskum granateplum.

P.s. Ég fékk mjög margar fyrirspurnir varðandi olíu, en veljið þá olíu sem þolir djúpsteikingu til dæmis wesson eða isio.

TA

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *