Bollakökur með súkkulaðiís og piparmyntusmjökremi

Ég og amma bökuðum ljúffengar bollakökur fyrr í vikunni. Ég var búin að sjá á netinu uppskriftir af bollakökum með ís og mér fannst það virkilega spennandi, þess vegna varð ég að prufa að baka slíkar kökur. Ég valdi Gott súkkulaðiísinn í kökurnar. Hann er að mínu mati ótrúlega góður og bragðmikill, ég vildi hafa mikið súkkulaðibragð af kökunum og því hentaði ísinn vel í baksturinn.  Auðvitað áttu kökurnar að vera svolítið jólalegar svo svo ég gerði piparmyntusmjörkrem því ég tengi piparmyntu alltaf við jólin. 
Kökurnar komu vel út og þau sem smökkuðu voru ánægð með þær,  þannig ég mæli með að þið prufið og ég vona að þið verðið líka ánægð. Sunnudagur til baksturs, það er sko ávísun á huggulegheit. 
Súkkulaðibollakökur með súkkulaðiís
Um það bil 20 – 22 bollakökur

200 g smjör, við stofuhita
4 egg 
3 dl sykur
5 dl hveiti 
1 tsk vanillusykur
2 tsk lyftiduft
4 dl Gott súkkulaðiís
150 g súkkulaðihnappar 
Aðferð:
1. Þeytið saman sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós, ca. 4 – 5 mínútur. 
2. Bætið einu og einu eggi saman við 3. Súkkulaðiísinn girnilegi, bætið honum saman við eggjablönduna og hrærið vel saman við. 
4. Sigtið þurrefnin saman og bætið við blönduna 5. Bætið súkkulaðihnöppum saman við með sleif
6. Skiptið deiginu niður í pappaform og setjið inn í ofn við 200°C í 15 – 20 mínútur.
  ATH. Að ofnar eru mismunandi svo fylgist vel með kökunum. Stingið pinna í kökurnar og ef pinninn kemur hreinn út þá eru kökurnar tilbúnar. 
Kælið kökurnar mjög vel áður en þið skreytið þær með kreminu.
Piparmyntusmjörkrem
Ég er mjög hrifin af piparmyntu og þetta var í fyrsta sinn sem ég prufaði að gera piparmyntusmjörkrem, ég nota piparmyntu extract sem fæst m.a. í Hagkaup og í Kosti. En þið getið auðvitað notað piparmyntudropa en að mínu mati er extractinn mun betri og bragðmeiri. 
230 g smjör, við stofuhita
5 dl flórsykur
2 – 3 tsk piparmyntu extract 
2 msk mjólk
Aðferð 
Blandið flórsykrinum og smjörinu vel saman í nokkrar mínútur, bætið því næst piparmyntu og mjólkinni saman við. Smakkið ykkur til, það er auðvitað mikilvægt. 
Ég notaði 1M stút frá Wilton til þess að sprauta kreminu á kökurnar. 
Fallegar bollakökur. Ég lét nokkur jarðaber ofan á hverja köku og sigtaði smávegis af flórsykri yfir. 
Það kom ánægjulega á óvart að hafa ísinn með, ég var mjög ánægð með útkomuna. 
Jólakökur sem bíða eftir jólunum. Að mínu mati gera kökur heimilið enn hlýlegra. 
Ég vona að þið eigið ljúfan sunnudag framundan kæru vinir og ég mæli með að þið setjið upp svuntuna og hefjið bakstur. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

1 comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *