Beikonvafinn kjúklingur og guðdómleg piparostasósa. Stórgóð grillmáltíð!

 Kjúklingaspjót
eru mjög vinsæl á sumrin, þau eru ekki bara gómsæt heldur eru þau ansi einföld
og fljótleg. Ég grillaði beikonvafinn kjúkling sem var mjög ljúffengur og því tilvalið að deila uppskriftinni með ykkur.
Beikonvafinn kjúklingur 
  •          600 g kjúklingakjöt (best
    er að nota bringur eða lundir)
  •          2 – 3 msk. Ólífuolía
  •          1 tsk. Paprikukrydd
  •          1 tsk. Kjúklingakrydd
  •          1 tsk. Kummin
  •          Salt og nýmalaður pipar
  •          1 pakki beikon
  •          1 rauð paprika, skorin í
    litla bita
  •          Tréspjót, sem legið hafa
    í bleyti í 20 mínútur.

Aðferð: Best er að nota bringur sem sneiddar eru í hæfilega bita eða
lundir.  Kjúklingakjötið er síðan látið liggja í nokkra stund í kryddleginum (olía og kryddin blönduð saman) t.d. um 30 mínútur. Vefjið beikoni utan um kjúklingabitana og þræðið upp á trépinna. Það er bæði fallegt og rosalega gott að þræða allskyns grænmeti á trépinnana, að þessu sinni var ég bara með rauða papriku en endilega bætið við t.d. sveppum og rauðlauk.  Gott er að pensla afganginum af kryddleginum á kjötið meðan á eldun stendur. Grillið í nokkrar mínútur, snúið spjótunum tvisvar til þrisvar sinnum.
Gott er að bera spjótin fram með grilluðum kartöflum og fersku salati. Mér finnst sérlega gott að búa til hvítlaukssmjör og setja smávegis ofan á bökunarkartöfluna mína. (Smjör við stofuhita, smátt söxuð steinselja og nokkur pressuð hvítlauksrif blöndum vel saman)
Piparostasósa

Þessi sósa er að mínu mati ein sú allra besta og hún hentar með öllum grillmat. 
  •         1 msk. Smjör
  •          Sveppir, magn eftir smekk. (það má sleppa þeim)
  •          1 piparostur
  •          ½ l matreiðslurjómi
  •          1 kjúklingateningur
Aðferð: Hitið smjör í potti, skerið sveppina smátt og steikið upp úr smjörinu í smá stund. Skerið piparostinn í litla bita og bætið honum út í pottinum ásamt rjómanum. Bætið kjúklingateningnum saman við. Leyfið ostinum að bráðna við vægan hita, hrærið vel í sósunni af og til.

Það er fátt betra en góð grillmáltíð á sumarkvöldi og það er sérstaklega ánægjulegt að fá góða gesti og njóta í góðra vina hópi. 
 Góða helgi kæru vinir. 
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *