Rosaleg súkkulaðibomba.

Á þjóðhátíðardaginn er svo sannarlega tilvalið að bjóða fjölskyldu og vinum heim í kaffiboð áður en haldið er í skrúðgöngu.
Íslensk Hnallþóra gegnir lykilhlutverki að mínu mati í kaffiboðum á þessum fallega degi.  Súkkulaði, Rice Krispies,
rjómi, fersk ber og enn meira súkkulaði. Það er blanda sem getur ekki klikkað.
Hér kemur uppskriftin að þjóðhátíðarkökunni dásamlegu.
Þjóðgerður

Súkkulaðibotnar:

Ég notaði þessa uppskrift en þið getið auðvitað notað hvaða súkkulaðibotna uppskrift sem þið viljið. Ég mæli þó með þessum botnum en þeir eru einstaklega mjúkir og góðir.

  •       3 bollar hveiti
  •       2 bollar sykur
  •          3 egg
  •          2 bollar venjuleg ab-mjólk
  •          1 bolli olía
  •          5-6 msk kakó
  •          2 tsk lyftiduft
  •          1 tsk natron
  •          nóg af vanilludropum, magn eftir smekk
Aðferð:
Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í nokkrar
mínútur eða þar til deigið verður slétt og fínt. Hellið deiginu í tvö smurð bökunarform.
Bakið við 175°C í 25 – 30 mínútur. Mikilvægt að fylgjast með og stinga gafli í
kökuna til þess að athuga hvort hún sé tilbúin, passið ykkur á því að baka ekki
of lengi. Kælið kökuna smávegis áður en þið setjið á hana kremið.
Rice Krispies botn:
  • 50 g smjör
  • 50 g suðusúkkulaði
  • 50 g Pipp karamellusúkkulaði
  • 2 msk síróp
  • 2,5 bolli Rice Krispies
Aðferð:

Bræðið smjör við vægan hita, setjið súkkulaðið
saman við og leyfið því að bráðna. Bætið sírópinu því næst saman við og hrærið
vel í. Passið að hafa vægan hita svo blandan brenni ekki. Þegar allt er orðið
silkimjúkt þá er gott að blanda Rice Krispies út í. Hellið blöndunni í form og
leyfið botninum að kólna í kæli í lágmark 15 mínútur.

Rjómakrem
  •         ½ l Rjómi
  •        1 msk. Flórsykur
Aðferð:
Þeytið rjóma og bætið flórsykrinum saman við í
lokin.
Súkkulaðisíróp – kremið.
  •        70 g smjör
  •       150 g suðusúkkulaði
  •       2 msk síróp

 

Aðferð:
Brjótið súkkulaðið og bræðið saman við smjörið við
vægan hita, ekki fara frá pottinum. Það er mjög auðvelt að brenna þessa góðu
sósu. Hrærið vel í sósunni og bætið sírópinu saman við í lokin. Það er mjög mikilvægt að kæla sósuna vel áður en þið dreifið henni yfir kökuna.
Hér eru myndir sem sýna bakstursferlið og hvernig við setjum saman kökuna.
Ég byrja á að baka súkkulaðibotnana, ég elska þessa uppskrift sem ég nota vegna þess að hún er svo einföld.

 

 

Næsta skref er að útbúa Rice Krispies botninn, það tekur enga stund að búa hann til og það er ferlega freistandi að smakka súkkulaðidásemdina í pottinum en passið ykkur, blandan er mjög heit.

 

 

Þá er komið að því að setja kökuna saman. Fyrst fer súkkulaðibotn, svo Rice krispies botninn og smávegis af súkkulaðisósunni.
Ég skar niður fersk jarðarber og bláber, sáldraði smá sykri yfir og geymdi í kæli í 15 mínútur. Þess þarf ekki en mér finnst það betra. Dreifið rjómanum yfir botnana og setjið svo berin yfir rjómann. Í rauninni er kakan klár á þessu stigi. Ég ákvað þó að fara alla leið og hafa hana tvöfalda.

 

Þá er kakan nánast klár. Nú þarf bara að hella sósunni yfir og skreyta með ferskum berjum. Gott er að sáldra smávegis af flórsykri yfir kökuna – bara rétt áður en þið berið hana fram.
Þessi kaka er rosalega góð og ætti að koma öllum í hátíðarskapið.

 

Ég mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa köku kæru vinir og njótið með fólkinu ykkar. Ég vona að þið eigið góðan þjóðhátíðardag framundan. Hæhójíbbíjej!
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

1 comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *