Ljúffengar kjötbollur með mexíkósku ívafi

Ég elska góðar kjötbollur og gott meðlæti. Ég fékk mikla löngun í kjötbollur eitt kvöldið í vikunni og þá eldaði ég þessar góðu kjötbollur með mexíkósku ívafi. Ótrúlega fljótlegur og bragðgóður kvöldverður sem ég mæli með að þið prófið. 

Kjötbollur með mexíkósku ívafi 
 • 500 g nautahakk
 • 1 egg, pískað
 • 3 – 4 hvítlauksrif, pressuð
 • 1/4 chili aldin, fræhreinsað og smátt saxað
 • 1 meðalstór rauðlaukur, smátt saxaður
 • handfylli ferskur kóríander, smátt saxaður
 • handfylli mulið nachos, með saltbragði (líka hægt að nota brauðrasp)
 • handfylli rifinn ostur 
 • salt og pipar, magn eftir smekk
 • olía eða smjör til steikingar
 • 1/2 l rjómi 
 • 1/4 – 1/2 kjúklingateningur 
 • salt og pipar, magn eftir smekk
Meðlæti: 
 • Ferskt salat (blandað salat, agúrka, lárpera og fetaostur ) og hrísgrjón
Aðferð: Blandið öllum hráefnum saman, best er að gera það með höndunum. Mótið litlar kúlur, mér finnst gott að miða við eina matskeið af deigi svo bollurnar séu hér um bil jafn stórar. Hitið olíu eða smjör á pönnu og brúnið bollurnar á öllum hliðum. Bætið rjómanum og kjúklingakrafti saman við. Kryddið til með salti og pipar. Leyfið bollunum að malla í sósunni í ca. 10 mínútur – 15 mínútur. Mér finnst sérlega gott að saxa niður kóríander og dreifa  yfir pönnuna í lokin.
Berið bollurnar fram með hrísgrjónum og fersku salati, já eða öðru góðu meðlæti. 
Einfalt, fljótlegt og gómsætt. 
xxx
Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *