Amerískar pönnukökur með ljúffengu bláberja sírópi.

Að byrja daginn á amerískum pönnukökum er ávísun að ljúfum degi,  ég segi það satt. Það er ekki hægt að fara öðruvísi út í daginn eftir pönnukökuát en með bros á vör og kannski með smá síróp út á kinn. Það er ekki langt síðan að ég byrjaði að baka þessar pönnukökur en mikið sem ég er ánægð að hafa byrjað á því, ég fæ ekki nóg af þeim. Í páskafríinu er tilvalið að baka pönnukökur í morgunsárið, ég er svo hrifin af páskafríinu vegna þess að það einkennist af svo mikilli ró. Ekkert stress og allir frekar slakir. Amerískar pönnukökur, bláberjasíróp, hrærð egg, beikon, ostar, sultur, hrökkbrauð, reyktur lax með piparrótarsósu og ferskir ávextir. Nú er ég að lýsa drauma morgunverði, það er eitthvað ofur dásamlegt við það að byrja daginn á góðum morgunverði.
 Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að einföldum amerískum pönnukökum og bláberjasírópi. Njótið vel!
 Amerískar pönnukökur
1 Egg
2 msk. Sykur
5 dl. Hveiti
3 tsk. Lyftiduft
1/2 tsk. Salt
3 msk. Smjör ( brætt)
4 dl. Mjólk (Ef ykkur finnst deigið of þykkt þá bætið þið meiri mjólk út í)
1 tsk. Vanilla extract
1. Sigtið saman hveiti, lyftidufti og salt í skál.
 2. Bræðið smjör, leggið til hliðar og kælið.
3. Hrærið mjólk og eggjum saman í annarri skál.
4. Setjið mjólkurblönduna út í hveitiblönduna og hrærið vel saman. 
5. Bætið smjörinu saman við í nokkrum pörtum og hrærið vel á milli.
6. Bætið vanillu extractinu og sykrinum saman við í lokin.
Þá ætti deigið að vera tilbúið. 
Hitið smá smjör á pönnu og setjið smá deig á, bakið á báðum hliðum þar til þær eru orðnar gullinbrúnar (Nokkrar mínútur á hverri hlið).
Bláberjasíróp.
1 1/2 dl agavesíróp
4 dl frosin eða fersk bláber
Setjið sírópið og bláberin í pott og hitið við vægan hita, leyfið þessu að malla í 4 – 5 mínútur. Hrærið í þessu á meðan, það er líka rosa gott að rífa smá sítrónubörk niður og bæta saman við. 
Hellið blöndunni í skál og berið fram með pönnukökunum. 
Þessar pönnukökur eru að mínu mati dásamlegar. Mér finnst þær sérstaklega góðar með bláberjasírópi og smá rjóma líka ef þið eruð í þannig stuði. 
Pönnukökurnar kláruðust fljótt, ég borðaði þær með bláberjasírópi en bræður mínir fengur sér annað síróp og borðuðu pönnukökurnar líka með smjöri og osti. Það eru semsé margir möguleikar í boði. 
Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift um páskana… Gott að hafa þá reglu að sá sem fyrstur fer á fætur ber skylda að vekja hina fjölskyldumeðlimi með pönnukökuilm. Það er alla vega húsregla sem ég myndi fylgja. 
Njótið ykkar um páskana elsku vinir. 
xxx
Eva Laufey Kjaran

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *