Það er alltaf svolítið erfitt að vakna á mánudögum eftir ljúfa helgi. Augnlokin virðast vera þúsund kíló og rúmið aldrei jafn heillandi. Ég stökk fram úr rúminu með látum í morgun, fékk þá tilfinningu að ég væri búin að sofa yfir mig. Það er svo óþægileg tilfinning. Ég leit á klukkuna og þá var dágóður tími þar til hún átti að hringja. Ég leit aftur á rúmið og hugsaði hvað það væri nú gott að skríða aftur upp í, ég ætti heilar 30 mínútur til góða í svefn. Í miðjum svefn pælingum þá áttaði ég mig á því að í dag er dagurinn sem gleður mig einna mest. Bolludagurinn! Þrátt fyrir að ég sé búin að fagna bolludeginum í nokkra daga þá er nauðsynlegt að fagna honum enn einu sinni. Ég dreif mig út í bakarí, vegna þess að mér finnst bollurnar svo góðar í Brauða-og kökugerðinni. Keypti eina bollu handa mér með bleikum rjóma og eina súkkulaðibollu handa honum Hadda mínum.