Eins og þið flest vitið þá elska ég pasta og þessi afar einfaldi réttur sem tekur korter að búa til er í algjöru uppáhaldi. Ég notaði æðislegt pasta frá Kaju Organic, en þetta er lífræn framleiðsla og auðvitað framleidd hér á landi. Það skemmir ekki fyrir að fyrirtækið er staðsett á Akranesi og þess vegna fannst mér enn skemmtilegra að prófa þetta pasta og það er æðislega gott, mæli hiklaust með að þið prófið og styðjið í leiðinni íslenska framleiðslu. Þetta er ekki auglýsing, annars myndi ég nú taka það fram
Ég er bara svo ánægð með fyrirtækið Kaja er að stækka og bæta við sig allskyns vörum sem eru afar spennandi.
TAGLIATELLE
- 200 g Tagliatelle
- Ólífuolía
- Salt og pipar
- 1 krukka pastasósa með basilíku frá merkinu Ítalía ca. 300 g
- 1/2 kjúklingateningur
- 2 lúkur spínat
- 14 kirsuberjatómatar
- Basilíka
- Nýrifinn parmesan
Aðferð:
- Forhitið ofninn í 180°C.
- Skerið kirsuberjatómata í tvennt, sáldrið góðri ólífuolíu yfir og kryddið til með salti og pipar. Bakið við 180°C í 10-15 mínútur eða þar til tómatarnir eru mjúkir í gegn.
- Setjið pastasósuna í pott, kryddið með salti, pipar og hálfum kjúklingatening. Leyfið sósunni að malla svolítið við vægan hita.
- Sjóðið pasta í vel söltu vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
- Sigtið vatnið frá þegar pastað er tilbúið og setjið ofan í pastasósuna, saxið spínatið svolítið og bætið út í pottinn. Blandið öllu vel saman og berið strax fram með bökum tómötum, basilíku og nýrifnum parmesan.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.