Ómótstæðileg jarðarberjaostakaka

Í fyrsta þætti af Matargleði Evu setti ég saman þessa ómótstæðilegu ostaköku með berjum. Það þarf ekki að baka þessa sem þýðir að það tekur ekki langan tíma að búa hana til. Ég elska ostakökur og mér finnst ofsalega gaman að útbúa þær, hægt er að leika sér með grunnuppskriftina að vild og bæta því sem manni finnst gott saman við. Eins og ég var búin að segja ykkur þá var viðfangsefni fyrsta þáttarins hjá mér hollar og fljótlegar uppskriftir en ég ákvað að setja þessa með, hún er kannski ekkert svo svakalega holl en hún getur verið það fyrir sálina þegar janúarlægðin nær hámarki og úti er kalt.. Þá er eiginlega bara nauðsynlegt að fá sér góða köku og njóta. Það finnst allavega mér 🙂

 

Ómótstæðileg jarðarberjaostakaka

Botninn:

 

  • 250 g hafrakex
  • 150 g smjör, brætt
Aðferð: Bræðið smjör við vægan hita, setjið kexkökurnar í matvinnsluvél og maukið. Hellið smjörinu saman við og hellið síðan í form. Sléttið úr blöndunni með bakhlið á skeið og þrýstið vel. Mér finnst best að nota smelluform en þá er þægilegra að ná kökunni úr forminu.

 

 

Ostafyllingin:
  • 600 g hreinn rjómaostur, við stofuhita
  • 3 msk. flórsykur
  • 200 g hvítt súkkulaði, brætt yfir vatnsbaði
  • 300 ml rjómi
  • 1 tsk. vanilla
  • 1 askja jarðarber
Aðferð: Þeytið rjómaostinn í smá stund, bætið flórsykrinum, rjómanum og vanillu saman við og hrærið. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði (kælið aðeins) og hellið út í ostablönduna í mjórri bunu. Skerið nokkur jarðarber og blandið saman við í lokin með sleif. Hellið blöndunni ofan á kexbotninn og inn í kæli. Geymið kökuna í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt. Skerið niður ber og skreytið kökuna, sigtið smávegis af flórsykri yfir í lokin áður en þið berið kökuna fram.
Sannkölluð vetrardrottning.

 

Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni sem eru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

 

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *