Ris a la Mande

Ris a la Mande er einn af mínum eftirlætis eftirréttum og nauðsynlegt að bera hann fram um jólin. Það kannast nú sennilega flestir við þennan eftirrétt og er hann mjög vinsæll á mörgum heimilum, enda er það enginn furða – hann er einstaklega góður. Rjómakenndur grautur með berjasósu og stökkum möndlubitum, þarf ég nokkuð að segja meira?
Ég vona að þið njótið vel.

 

Ris a la Mande

Grauturinn:
  • 2 1/4 dl grautargrjón
  • 1 L nýmjólk
  • 1 -2 vanillustangir
  • smá salt
  • 50 g hvítt súkkulaði
Aðferð:
  1. Penslið pott með smá smjöri en það kemur í veg fyrir að grjónin og mjólkin brenni við.
  2. Hellið mjólkinni í pottinn og leyfið suðunni að koma upp, bætið þá grjónunum út í pottinn og hrærið vel í.
  3. Kljúfið vanillustöngina í tvennt, skafið fræin innan úr og setjið í pottinn.
  4. Sjóðið grautinn við vægan hita í 35 – 40 mínútur. Hrærið af og til í pottinum, það er mjög auðvelt að brenna grautinn við og þess vegna þarf að fylgjast vel með.
  5. Þegar grauturinn er tilbúinn bætið þið smátt söxuðu hvítu súkkulaði saman við og hrærið, súkkulaðið bráðnar í grautnum og gefur honum einstaklega fallega áferð. En auðvitað megið þið sleppa súkkulaðinu ef þið viljið. (en hver vill sleppa súkkulaði?);)
  6. Kælið grautinn mjög vel áður en þið útbúið Ris a la Mande. Best er að gera grautinn deginum áður og þá kólnar hann í rólegheitum yfir nótt.
Ris a la Mande
  • 1 skammtur grautur (uppskriftin hér að ofan)
  • 200 ml rjómi
  • 2 msk flórsykur
  • 100 g möndlur, hakkaðar og ristaðar
  • kirsuberjasósa
  • fersk kirsuber
Aðferð:
  1. Þeytið rjóma og bætið flórsykrinum saman við.
  2. Blandið rjómablöndunni saman við grautinn með sleikju.
  3. Hakkið möndlur, ristið þær og kælið. Þegar þær eru kaldar þá bætið þið þeim við grautinn, mér finnst ágætt að setja 70% í grautinn en geyma 30% af möndlunum til skrauts.
  4. Hellið nú grautnum í fallega skál eða skálar. Ég keypti tilbúna kirsuberjasósu sem mér þykir einstaklega góð og hellti yfir grautinn. Sáldraði möndlum yfir og skreytti með nokkrum ferskum kirsuberjum.
  5. Kælið grautinn áður en þið berið hann fram.
Algjört lostæti!

 

 

 

Ég vona að þið eigið góðan sunnudag með fólkinu ykkar kæru lesendur.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni sem notuð eru í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *