Indversk veisla

Tikka masala kjúklingur

Fyrir 3-4

 • 3 hvítlauksrif
 • 1 msk rifið ferskt engifer
 • 3 msk sítrónusafi
 • 1 dl hrein jógúrt
 • 1 tsk salti
 • ½ rautt chilialdin
 • 1 tsk kóríanderfræ
 • Handfyllisaxað kóríander
 • 3 tsk garam masala
 • 700 g kjúklingakjöt, skorið í litla bita

Aðferð:

 1. Blandið öllum hráefnum saman og skerið kjúklingakjötið í litla bita
 2. Setjið allt í plastpoka og inn í kæli í 2 – 3 klukkstundir, best yfir nótt.
 3. Eftir þann tíma er kjúklingurinn steiktur á pönnu í 2 – 3 mínútur og síðan fært yfir í pottinn með sósunni og látið malla í 15 – 20 mínútur.

Sósan:

 • 2 – 3 msk ólífuolía
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 msk rifið engifer
 • ½ rautt chilialdin
 • 1 tsk túrmerik
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk múskat
 • 2 msk tómatpúrra
 • 200 g hakkaðir tómatar
 • 3 msk sýrður rjómi
 • 3 msk hrein jógúrt
 • 1 dl rjómi
 • Handfylli ferskur kóríander

Aðferð:

 1. Hitið olíu á pönnu og steikið hvítlauk, engifer og chili.
 2. Bætið kryddunum út á pönnuna og hrærið.
 3. Því næst fara hakkaðir tómatar, tómatpúrra, sýrður rjómi, rjómi og hrein jógúrt saman við.
 4. Leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur og steikið kjúklinginn á meðan.
 5. Setjið kjúklinginn út í pottinn og leyfið sósunni að malla í 20 mínútur.
 6. Smakkið ykkur til með salti og pipar.

Naan brauð

 • 150 ml volgt vatn
 • 200 g hveiti + meiri ef ykkur finnst deigið of blautt
 • 2 tsk þurrger
 • 1 tsk hunang
 • 1 tsk salt
 • 3 msk ab mjólk
 • 1 msk ólífuolía
 • 1msk brætt smjör
 • 1 msk ólífuolía
 • 1 hvítlauksrif
 • ½ tsk salt
 • 1 tsk smátt söxuð steinselja

Aðferð:

 1. Blandið vatni, geri og hunangi saman í skál.
 2. Leggið viskastykki standa yfir skálina og um leið og það byrjar að freyða í skálinni er gerið tilbúið.
 3. Bætið því næst hveitinu, saltinu, ab mjólkinni og ólífuolíunni saman við og hrærið vel saman.
 4. Stráið smá hveiti á borð og hnoðið þar til deigið verður samfellt og fínt, leyfið deiginu að hefast í klukkustund.
 5. Skerið deigið í litla bita og mótið kökur, þær eiga að vera fremur þunnar.
 6. Steikið á heitri pönnu á hvorri hlið í 1-2 mínútur.
 7. Blandið saman í skál, smjöri, olíu, salti, steinselju og hvítlauk og penslið á naan brauðin þegar þau eru nýsteikt. Það gefur þeim dásamlegan hvítlaukskeim! Má auðvitað sleppa því ef þið eruð ekki hrifin af hvítlauk.

Raita sósa

 • 250 g ab mjólk
 • ½ agúrka
 • Salt og pipar
 • 2 msk smátt saxður kóríander

Aðferð:

Saxið hráefnin afar smátt og blandið öllu vel saman í skál, geymið helst í kæli í smá stund áður en þið berið sósuna fram

Lauk Pakodas

Laukstrimlar, hvítlaukur og kóríander ásamt kryddum.

12-14 stk

 • 4 laukar
 • Handfylli kóríander
 • 3 hvítlauksrif
 • ½ grænt chili
 • 2 tsk salt
 • 1 tsk cumin krydd
 • 1 tsk karrí
 • 2 dl hveiti
 • 2 – 3 msk vatn
 • Olía til djúpsteikingar  

Aðferð:

 1. Skerið lauk í þunna strimla.
 2. Saxið kóríander, hvítlauk og chili og blandið saman við laukinn.
 3. Kryddið með salti, cumin og karrí. Blandið öllu vel saman með höndunum.
 4. Bætið hveiti út í (ég notaði venjulegt en það er mælt með að nota kjúklingabaunahveiti, prófa það næst).
 5. Hellið vatninu smám saman við, það þarf alls ekki mikið og deigið má ekki vera of blaut. Þegar þið getið mótað litlar kúlur sem festast saman er deigið klárt.
 6. Mótið jafn stórar kökur og hitið olíu sem þolir djúpsteikingu til dæmis Wesson.
 7. Hálffyllið pönnu eða pott, setjið kökurnar út í og steikið í 3-4 mínútur eða þar til kökurnar eru brúnar. Þetta tekur smá stund og það er ágætt að snúa kökunum við nokkrum sinnum og gætið þess að snúa þeim við varlega, þær eru svolítið viðkvæmar.
 8. Þerrið á eldhúspappír og kryddið með salti.
 9. Berið strax fram.

Aloo Gobi – með twisti!

Fékk hugmyndina hjá vinkonu minni henni Emilíu Ottesen

 • 3 stórar bökunarkartöflur
 • ½ höfuð blómkál
 • 1 tsk salt
 • Olía
 • 3 tsk karrí
 • 300 ml kotasæla
 • 4 msk mango chutney (ég notaði chutney  frá merkinu Geeta‘s og það var rosalega gott)

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 200°C.
 2. Skerið kartöflur í litla teninga og blómkálið sömuleiðis smátt.
 3. Kryddið með salt og karrí, blandið vel saman og leggið í eldfast mót.
 4. Hellið vel af olíu yfir og eldið við 200°C í 20 mínútur.
 5. Þegar 20 mínútur eru liðnar af eldunartímanum, bætið þá kotasælunni og mango chutney saman við og hrærið vel. Eldið áfram í 20 mínútur og berið strax fram.
Mynd: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir tók þessa mynd.
Bók: Í eldhúsi Evu
Aloo Gobi með twisti
Lauk pakodas

Daginn eftir – Naan pizza með afgöngum!


Þetta var svo gott og ég hlakka til að elda þennan mat aftur, sem fyrst!

Mæli með.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *