Easy like sunday morning

Nýbakaðar pönnukökur, dásamlegur kaffiilmur, fólkið mitt og fullkomið haustveður, bara ef allir sunnudagar væru svo fullkomnir. Og já hreint heimili, ég segi ykkur þetta satt. Svona dagar eru afskaplega notalegir og því er nauðsynlegt að njóta þeirra. Ég elska pönnukökur eins og þið hafið eflaust tekið eftir í gegnum tíðina og í morgun þá prófaði ég að sleppa súrmjólkinni sem ég er vön að nota í pönnukökurnar og útkoman var ansi ljúffeng og verð ég að deila uppskriftinni með ykkur. Það má nú kannski fylgja sögunni að ástæðan fyrir því að ég sleppti súrmjólkinni er einfaldlega vegna þess að ég var of löt til þess að skjótast út í búð, there i said it.
Pönnukökurnar runnu ljúft niður með bönunum, sírópi, súkkulaðismjöri og ferskum bláberjum. Virkilega gott og einfalt! Ég setti inn aðferðina á Snapchat og þið getið fylgt mér þar ef þið viljið, notendanafnið er evalaufeykjaran.
Annars hef ég saknað þess óskaplega að blogga reglulega og ég vona að þið fyrirgefið mér bloggleysið, ástæðurnar eru nokkrar en nú er verið að vinna í því fyrir mig að smíða nýtt og endurbætt blogg sem fer í loftið í október, planið var að það færi í loftið í september en stundum breytast plönin og þá er bara í fína lagi að blogga hér á meðan. Ég er orðin ansi spennt fyrir nýju útliti en ég er búin að vera með þetta blogg nánast óbreytt í útliti í fimm ár – aldeilis kominn tími á breytingar!
Ég hef aðeins verið að bardúsa frá því síðast, en við Haddi giftum okkur í sumar, fluttum upp á Akranes, ég kláraði bókina mína, byrjaði í skólanum og er nú að byrja í tökum á nýjum þáttum sem kallast Ísskápastríð. Það er semsagt alveg nóg að gera sem er mjög ánægjulegt og ég hlakka til að deila þessu öllu með ykkur sem fyrst,  en byrjum á þessum ljúffengu pönnukökum sem þið eruð enga stund að skella í.

 

Amerískar pönnukökur með öllu tilheyrandi
Fyrir 3 – 4
Hráefni:
  • 270 g Kornax hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanilludropar
  • salt á hnífsoddi
  • 3 msk sykur
  • 2 stór egg eða 3 lítil
  • 280 ml mjólk
  • 4 msk brætt smjör + meira til steikingar

 

Aðferð:
Sigtið saman þurrefnin í skál. Pískið egg og mjólk í annari skál þar til eggjablandan verður ljós, bræðið smjör og hellið því út í eggjablönduna og hrærið. Hellið vökvanum og sykrinum saman við hveitiblönduna og hrærið þar til deigið verður silkimjúkt. Leyfið deiginu að standa og taka sig í svolitla stund áður en þið steikið það, á meðan getið þið til dæmis lagt á borðið.
Bræðið smávegis af smjöri á pönnu og steikið pönnukökurnar í 1 – 2 mínútur á hvorri hlið, eða þar til þær eru gullinbrúnar. Berið pönnukökurnar fram með allskyns góðgæti en mér finnst þær æðislegar með bönunum, bláberjum og sírópi. Algjört lostæti!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ingibjörg Rósa fagnar sunnudag lúxusnum.

 

Einn koss fyrir morgunmatinn bætir og kætir. P.s. Já, ég ætti að vera með tískublogg. Ég átta mig á því núna. Haha!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Namm hvað þetta var gott. Mæli innilega með þessum pönnsum, þið eigið pottþétt eftir að gera þær aftur og aftur.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin sem voru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

 

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *