Yfirkokkur á Hótel Rangá deilir ljúffengum uppskriftum

Haraldur Sæmundsson yfirkokkur á Hótel
Rangá var svo yndislegur að deila með mér og lesendun mínum uppskriftum af réttum  sem hann
ætlar að matreiða um jólin.  Haraldur er
skagamaður og meira ljúfmenni hef ég sennilega ekki kynnst. Hann er virkilega
fær kokkur og matarástin er allsráðandi hjá þessum unga manni. Hann hefur
síðustu þrjú árin eldað fyrir Hjálpræðisherinn
í Reykjavík á aðfangadagskvöld. 

Í ár ætlar hann að matreiða ljúffenga rétti fyrir fjölskyldu
sina og ætlar bjóða upp á pönnusteiktan humar með hvítlauksrjómasósu og  í aðalrétt ætlar Haddi
að bjóða upp á Hreindýr og gæs, borið fram með smjörsteiktu smælki,
villisveppasósu og rótargrænmeti. Hann kýs að hafa réttina einfalda en
matarmikla þegar hann eldar fyrir fjölskylduna. Í eftirrétt ætlar fjölskyldan að gæða sér á Toberone ís sem móðir hans býr til fyrir hver jól. Hann var svo elskulegur að deila með okkur jóla seðlinum sínum. 
Pönnusteiktir humarhalar með hvítlauksrjómasósu
Humarhalarnir eru skornir í tvennt og brúnaðir upp úr smjöri. Þeir eru síðan teknir af pönnuni og settir til hliðar . Síðan er um 250 ml af
hvítvíni hellt á pönnuna og það soðið niður um 2 / 3. Þá er söxuðum hvítlauk
bætt útí og í kjölfarið eru 200 ml af rjóma hellt á pönnuna og er rjóminn einnig
soðinn niður um 2 /3. Því næst er klípu af smjöri bætt út í sósuna og þá er humrinum
bætt aftur út í og þetta allt hitað saman. Í lokin er smá saxaðri steinselju stráð yfir ásamt safa úr hálfri sítrónu.


Borið fram með heitu brauði
Hreindýr og gæs borið
fram með smjörsteiktu smælki , villisveppasósu og rótargrænmeti
600 gr gæsabringa
600 gr Hreindýra fille
Smjör
Salt og pipar

Aðferð:
Hreindýrið og gæsin hreinsuð.
Gæsin er síðan brúnuð upp úr smjöri  á
sjóðandi heitri pönnu og síðan  krydduð
með salti og pipar. Gæsin er síðan sett í eldfastmót og kláruð í ofninum á 200
gráðum í 7 mín. Á meðan gæsin hvílir í ofninum er hreindýrið pönnusteikt eins
og gæsin. Því næst er svo smá rauðvíni hellt á pönnuna til að ná að leysa  upp allt bragðið og búa til smá villisoð.
Meðlæti:
600 gr smælki kartöflur
300 gr rótargrænmeti
600 gr  flúðasveppir
Aðferð:
Kartöflurnar eru soðnar upp úr
vel söltu vatni og síðan settar í eldfastmót með miklu smjöri og smá hvítlauk
og eldað í ofni á 80 gráðum í 45 mínutur (gott
að dreifa smá grófu salti yfir kartöflurnar áður en þær eru bornar fram )
300 gr af flúðasveppum eru
saxaðir niður og steiktir á pönnu uppúr hvítlaukssmjöri.  Mjög
gott er að strá smá steinselju yfir til fá fallegri liti og betra bragð.
Hin 300 gr af sveppunum eru
skornir í báta og eldaðir upp úr olíu á 180 gráðum í 40 mín. Síðan eru
sveppirnir þerraðir og settir í matvinnsluvél með klípu af smjöri og smá salti
og pipar. Sveppirnir eru maukaðir alveg þangað til sveppamaukið fær silkimjúka
áferð.
Rótargrænmetið samanstendur af
gulrótum, seljurót og sætum kartöflum. Allt grænmetið er skorið í hæfilega
stóra bita og soðið í brimsöltu vatni í 2 mínutur og síðan snögg kælt í klaka
vatni, með þessu næ ég  að viðhalda bæði
lit og bragði grænmetisins. Grænmetið er síðan steikt á pönnu upp úr smjöri,
hvítlauk og slettu af hvítvíni.
Villisveppasósa 
Salt og nýmulinn svartur pipar

Kjötkraftur

50 g smjör

25 g þurrkaðir villisveppir

250 g sveppir

4 dl rjómi

1 dl vatn

Sósu aðferð:
Leggið villisveppina í bleyti í volgt vatn og látið standa í 15 mínútur. Saxið
sveppina og villisveppina, setjið á pönnu og brúnið í smjörinu og kryddið með
salti og pipar. Síðan er rjóma og vatni bætt í og  suðan látin koma upp.  Hrærið vel í. Hægt að bragðbæta með
kjötkraftinum sem þið fenguð af pönnunni ef með þarf.

Ég er algjörlega heilluð af þessum réttum og ég hlakka til að prufa þá.
 Ég vona að þið njótið vel kæru lesendur og þúsund þakkir elsku Haddi fyrir að deila þessum uppskriftum með okkur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran
  

Endilega deildu með vinum :)

2 comments

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *