Vatnsdeigshringur með karamellufyllingu

Vatnsdeigsbollur/hringur

10 – 12 bollur eða einn stór hringur

Hráefni:

  • 100 g smjör
  • 2 dl vatn
  • 2 msk sykur
  • 110 g hveiti
  • 3 stór egg

Aðferð:

  1. Forhitið ofninn í 200°C. (blástur)
  2. Hitið vatn, smjör og sykur saman í potti og látið suðuna koma upp. (gott er að láta vatn, sykur og smjör sjóða vel saman í 2 – 3 mínútur áður en hveitið er sett út í.
  3. Setjið hveiti út í, hrærið saman og látið kólna í 4 mínútur.
  4. Takið pottinn af hitanum og setjið eggin út í eitt í einu, sláið vel saman á milli. Það er líka ágætt að setja deigið í hrærivélaskál og hræra þannig saman.
  5. Setjið deigið  í sprautupoka og sprautið bollunum á pappírsklædda bökunarplötu en það má auðvitað gera það líka með tveimur skeiðum. Ef þið gerið hring þá sprautið þið einn stóran hring á pappírsklædda ofnplötu.
  6. Bakið bollurnar í 25 – 30 mínútur, það er mikilvægt að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínúturnar af bökunartímanum því þá er hæta á að bollurnar falli.

Karamellufylling

  • 500 ml rjómi (gott að nota g-rjóma frá MS, hann er stífari)
  • 2 tsk vanillusykur
  • 1 msk karamellusósa (uppskrift hér að neðan)
  • 100 g karamellukurl

Aðferð:

  1. Þeytið rjóma og vanillusykur þar til rjóminn er stífþeyttur.
  2. Bætið karamellusósu og karamellukurli saman við með sleikju.
  3. Setjið rjómann í sprautupoka og sprautið á milli botnanna.

Karamelluglassúr

  • 150 g söltuð karamellusósa
  • 1 – 2 dl flórsykur, magn fer eftir smekk eða eftir því hversu þykkt kremið á að vera fyrir ykkar smekk.

Aðferð:

  1. Blandið sósunni og flórsykrinum saman þar til þið eruð sátt við þykktina, sem má ekki vera of þunn því þá lekur kremið út um allt.
  2. Smyrjið kreminu á bollurnar eða kökuna.

Söltuð karamellusósa:

  • 200 g sykur
  • 4 msk smjör
  • 1 dl rjómi
  • ½ tsk sjávarsalt

Aðferð:

  1. Bræðið sykurinn á pönnu án þess að hreyfa við honum, þegar sykurinn er allur bráðinn bætið þið smjörinu út á pönnuna og hrærið stanslaust. Ágætt að lækka hitann á hellunni í miðlungshita.
  2. Hellið rjómanum því næst saman við og hrærið áfram þar til karamellusósan er orðin slétt og fín. Saltið sósuna í lokin.
  3. Hellið sósunni í skál/krukku og leyfið henni að kólna alveg, hún þykknar um leið og hún kólnar.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Endilega deildu með vinum :)

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *